Viðskipti innlent

Hannes Smárason var ráðgjafi við sölu á Íslenskri erfðagreiningu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hannes Smárason athafnamaður var ráðgjafi við sölu á Íslenskri erfðagreiningu til bandaríska fyrirtækisins Amgen fyrir 52 milljarða króna. Kári Stefánsson segir að ráðgjöf Hannesar hafi ekki skipt öllu máli um hvort fyrirtækið yrði selt en segir hann hafa veitt aðstoð í tengslum við fjármál.

Hannes og Kári hafa þekkst lengi en Hannes var aðstoðarstjóri Íslenskrar erfðagreiningar um sjö ára skeið áður en hann fór að sinna eigin fjárfestingum, en þar á undan starfaði Hannes hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey og co.

Á dögunum var tilkynnt um söluna á Íslenskri erfðagreiningu til bandaríska líftækni- og lyfjaframleiðslufyrirtækisins Amgen fyrir 415 milljónir dollara, jafnvirði 52 milljarða króna.

Íslensk erfðagreining hefur aldrei skilað hagnaði þau 15 ár sem fyrirtækið hefur verið í rekstri en mikil verðmæti eru talin felast í rannsóknum og uppgötvunum þess og Amgen telur að þau geti nýst við lyfjaþróun.

Kári Stefánsson er gestur okkar í nýjasta þættinum af Klinkinu þar sem hann fer ítarlega yfir kaup Amgen á Íslenskri erfðagreiningu. "Þeir leituðu til okkar. Við höfðum verið að vinna fyrir Amgen í tengslum við verkefni sem snýr að hjartabilun. Þær viðræður gengu vel. Svo einn daginn þá fékk ég skilaboð frá breskum bankamanni sem ég kannast við um að forstjóri Amgen væri að reyna að ná í mig og upp úr því hófust viðræður sem enduðu á því að þeir keyptu fyrirtækið," segir Kári. Hann segir að viðræður um kaupin á ÍE hafi hafist um miðjan nóvember og það hafi tekið 30 daga að ljúka samningum.

Starfsemin í Vatnsmýri verður óbreytt

Kári verður áfram forstjóri og starfsemin í Vatnsmýri verður óbreytt sem rannsóknareining og þannig verða störf 140 starfsmanna, sem flestir eru vísindamenn, tryggð. "Okkar dagsskipun frá Amgen er að við eigum að halda áfram að gera okkar besta til að leiða erfðafræðina. Halda áfram að birta vísindagreinar og halda áfram að reyna hífa upp orðstír íslenskra vísinda."

Hversu mikilvæg var ráðgjöf Hannesar Smárasonar í tengslum við söluna á Íslenskri erfðagreiningu til Amgen? "Hannes Smárason kom ekki á neinn hátt að því að semja við Amgen."

Var hann ekki ráðgjafi við söluna? "Hann hjálpaði við tæknilega útfærslu á smáatriðum innan þess. Hann kom þangað sem gamall vinur og félagi, sem ég ber mikla virðingu fyrir. Feikilega skýr og hugmyndaríkur maður. En hann, sá ekki um samningagerð við Amgen."

Hannes Smárason
Kári segir að Hannes hafi fengið þóknun fyrir sína vinnu og ráðgjöf hans hafi skipt máli þegar áreiðanleikakönnun var gerð. "Hannes er feikilega læs á fjárhagslegar upplýsingar og það nýttist vel."

En hvernig kemur Kári sjálfur út úr þessum samningi? "Ég kem ágætlega út úr þessu fjárhagslega, þannig að ég get ekki kvartað undan því." Kári gefur ekki upp hvað hann átti stóran hlut, en segir að hann hafi verið "býsna lítill."

Viðtalið við Kára í Klinkinu má nú nálgast í heild sinni á viðskiptavef Vísis. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×