Viðskipti innlent

Íslenskir minkabændur fengu 13.000 fyrir skinnið

Ekkert lát er á verðhækkunum á minkaskinnum og heldur því uppgangur íslenskra loðdýrabænda áfram.

Mjög góð verð fengust fyrir minkaskinn á uppboði hjá Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn nú undir vikulokin. Meðalverð á skinnunum reyndist 583 danskar krónur eða nærri 13.000 krónur. Til samanburðar var verðið um 500 danskar kr. fyrir skinnið á síðasta uppboði.

Íslenskir loðdýrabændur seldu nærri 8.000 skinn á þessu uppboði fyrir yfir 100 milljónir króna. Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda sem staddur er í Kaupmannahöfn segir að uppboðið hafi verið ótrúlegt og legið hafi við áflogum á því milli kaupenda.

Í börsen segir að verð á minkaskinnum hafi hækkað um 25% frá uppboðinu fyrir ári síðan. Á næsta uppboði í febrúar munu um 30.000 íslensk skinn verða til sölu.

Uppboðið í desember markar upphafa næsta söluárs hjá Kopenhagen Fur. Á því síðasta seldu íslenskir loðdýrabændur minkaskinn fyrir um 1,5 milljarða króna á þessum uppboðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×