Viðskipti innlent

Forstjóri Vodafone: Símamarkaðurinn á fleygiferð

Magnús Halldórsson skrifar
Ómar Svavarsson segir að miklar breytingar hafi orðið á símamarkaði, bæði hér á landi og erlendis, að undanförnu og gagnaflutningar, m.a. vegna snjallsímanotkunar, hafi margfaldast og þannig breikkað tekjumöguleika fjarskiptafyrirtækja. Markaðurinn sé að þróast ört, en hefðbundin símanotkun sé þó enn grunnstofninn í tekjum símafyrirtækja.

Hann segir rekstur Vodafone nú, eftir endurskipulagningu í kjölfar hrunsins, einkennast af stöðugleika og góðum rekstrarhagnaði, en gert er ráð fyrir að heildartekjur félagsins verði um 13 milljarðar á þessu ári. "Það verður fyrst og fremst áhersla hjá okkur stjórnendum félagsins að halda rekstrinum innan þeirra marka sem lagt er upp með," segir Ómar, en hann er gesturinn í nýjasta þætti Klinksins og ræðir þar vítt um breitt um rekstur félagsins og skráningu þess á markað sem fyrirhuguð er í næsta mánuði.

Framtakssjóður Íslands er stærsti eigandi Vodafone með 79 prósent hlut, en hann hyggst selja 50 til 60 prósent hlutafjár í Vodafone. Miðað er við gengið 28,8 til 33,3 eða sem nemur 9,7 til 11,2 milljarða króna fyrir heildarflutafé félagsins.

Ómar segir stöðu efnahagsmála hér á landi um margt taka mið af stóum óvissuþáttum, en hann sé þó bjartsýnn á að efnahagurinn sé að rétta úr kútnum. "Vinir mínir í Færeyjum segja að þetta sé eins og sjá ljós fyrir enda ganganna. Hvort þetta sé dagsljósið eða lest að koma er erfitt að segja, en ég er bjartsýnn," segir Ómar.

Sjá má viðtalið við Ómar í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×