Innlent

Engin Ungfrú Ísland þetta árið

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar

Engin Ungfrú Ísland verður krýnd í ár og er það í fyrsta skipti í yfir þrjátíu ár sem fegurðarsamkeppni Íslands er ekki haldin. Keppnin hefur hins vegar ekki lagt upp laupana og verður Ungfrú Ísland árið 2013 krýnd næsta vor.

Fegurðarsamkeppni Íslands, Ungfrú Ísland, hóf göngu sína árið 1950 og hefur verið haldin árlega nær óslitið síðan þá að undanskildum árunum 1952 og 1981. Á þessum árum hafa sextíu íslenskar stúlkur verið krýndar Ungfrú Ísland og tekið þátt í erlendum fegurðarsamkeppnum á borð við Miss World þar sem Ísland hefur þrisvar sinnum átt fegurstu konu heims.

Engin Ungfrú Ísland keppni verður hins vegar haldin á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum frá Arnari Laufdal eiganda keppninnar var ákveðið að halda keppnina ekki vegna tímaleysis þar sem hann segist vera nýbúinn að stofna fyrirtæki og vildi einbeita sér að því. Því hafi stúlkan sem lenti í öðru sæti Ungfrú Ísland 2010, Íris Jónsdóttir, keppt í Miss World fyrir Íslands hönd í ágúst síðastliðnum.

Arnar segir keppnina hins vegar ekki hafa lagt upp laupana heldur verður hún haldin á ný næsta vor og undankeppnin Ungfrú Reykjavík í apríl næstkomandi.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.