Innlent

Chris Hemsworth kominn til landsins

Chris Hemsworth, til vinstri,  er kominn hingað til lands til þess að leika í einni stærstu kvikmynd sem hefur verið tekin upp hér á landi.
Chris Hemsworth, til vinstri, er kominn hingað til lands til þess að leika í einni stærstu kvikmynd sem hefur verið tekin upp hér á landi.
Leikarinn Chris Hemsworth, sem flestir kannast við úr kvikmyndinni Thor, er kominn hingað til lands samkvæmt heimildum Vísis til þess að taka upp framhald kvikmyndarinnar, Thor 2. Leikarinn fer einmitt með aðalhlutverk myndarinnar, þar sem hann túlkar ofurhetjuna Þór.

Eins og greint hefur verið frá verður hluti myndarinnar tekin upp hér á landi, en tökur munu fara fram í Dómadal við Landmannalaugar samkvæmt heimildum Vísis. Gríðarlegt fjölmenni mun koma að kvikmyndinni hér á landi, en hátt í 300 manns munu koma frá Bandaríkjunum til þess að vinna við gerð myndarinnar. Þá er ótalinn sá fjöldi Íslendinga sem munu starfa við myndina, en það er framleiðslufyrirtækið True North sem mun þjónusta erlenda tökuliðið.

Samkvæmt fréttavef RÚV kemur auk Hemsworth, breski leikarinn Christopher Eccelstone, hingað til lands. Þar kemur einnig fram að tökurnar munu verða þær umfangsmestu sem hafa átt sér stað hér á landi í þessum geira þó að tökur muni aðeins standa yfir í eina viku.

Hollywood er aldeilis hrifið af Íslandi því þetta er fjórða stórmyndin sem er tekin hér á landi á skömmu tímabili. Hinar eru Oblivion, Noah og The Secret Life of Walter Mitty.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×