Innlent

Vindpokarnir verða til á Vopnafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar

Vindpokar allra flugvalla á Íslandi eru saumaðir í þorpi á Austurlandi, og pokarnir fyrir Keflavíkurflugvöll eru hafðir mun stærri en pokar annarra valla. Þeir eru helsta tákn flugvalla, og segja flugmönnum með einföldum hætti hvaðan vindurinn blæs og gefa einnig vísbendingu um vindstyrk.

Við pælum hins vegar sjaldnast í því hvaðan þeir koma, - höldum kannski að þeir séu sendnir tilsniðnir til landsins frá Alþjóðaflugmálastofnuninni. En svo er ekki. Vindpokarnir koma frá Vopnafirði.

Vinnustaðurinn heitir Jónsver og var stofnaður af Sjálfsbjörgu og Félagi eldri borgara á Vopnafirði til að skapa atvinnu fyrir fólk með skerta starfsorku. Gunnhildur Ásmundsdóttir saumar alla vindpokana og í mismunandi stærðum og í viðtali í fréttum Stöðvar 2 skýrir hún frá því að stærstu pokarnir séu saumaðir fyrir Keflavíkurflugvöll.

Þarna voru ellefu manns í hlutastarfi á síðasta ári, við ólík verkefni eins hnakkaviðgerðir, fata- og skóviðgerðir, sem kemur sér vel í héraði þar sem langt er að sækja margskyns viðgerðaþjónustu. Ólafur Valgeirsson, framleiðslustjóri Jónsvers, segir að þau segi ekki nei við neinu verkefni, fyrr en fullreynt sé hvort þau geti leyst það af hendi.

Þarna eru líka saumuð skotveiðibelti og gert við húsgögn, hælar smíðaðir í fótlagaskó og búnir til skrýtnir inniskór til að setja utan um útiskó. Ari Hallgrímsson, starfsmaður Jónsvers, segir okkur að inniskórnir séu sérstaklega hugsaðir fyrir laxveiðimenn, svo þeir geti farið inn í veiðihús til að sækja bjórinn sinn án þess að fara úr vöðlunum.

En Jónsver er ekki bara vinnustaður, heldur líka samkomustaður, en Ólafur framleiðsustjóri segir okkur að félagslegi þátturinn sé ekki síður mikilvægur, að fólk geti komið saman og unnið eitthvert gagn, og ekki spilli fyrir að fá eitthvað lítilræði fyrir vikið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.