Innlent

Hert öryggisgæsla vegna rándýrrar bókar

BBI skrifar

Stærsta og dýrasta bók sem nú er fáanleg á almennum bókamarkaði á Íslandi, hátíðarútgáfa Íslenskra fugla eftir Benedikt Gröndal, er nú í fyrsta sinn til sýnis fyrir almenning í Eymundsson í Smáralind. Af því tilefni hefur öryggisgæsla verið hert í versluninni og starfsmenn hafa á bókinni sérstakar gætur.

Bókin kostar 230.000 krónur fullu verði og aðeins eru gefin út 100 tölusett eintök. Hún er bundin í sérsútað sauðskinn frá verksmiðju Loðskinns á Sauðárkróki, handbunin af Ragnari Eiríkssyni bókbindara og er í sérsmíðuðum viðarkassa. Enn eru tæplega 50 eintök af bókinni fáanleg.

Benedikt Gröndal teiknaði myndirnar í bókina í kringum aldamótin 1900, alls 100 myndir af öllum fuglum sem hann vissi til að sést hefðu á Íslandi. Handritið var aldrei gefið út og var geymt í læstum skjalaskáp Náttúrufræðistofnunar Íslands í meira en hálfa öld. Bókin kom út í útgáfu fyrir almenning árið 2011 hjá bókaútgáfunni Crymogeu í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Hátíðarútgáfan er endurgerð upprunalega handritsins og geymir auk allra fuglateikninga Benedikts líka listilega handskrifaðan texta hans auk skýringa og eftirmála Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings.
Fleiri fréttir

Sjá meira