Viðskipti innlent

Ævintýralegt ár hjá minkabændum, seldu fyrir 1,5 milljarð

Íslenskir minkabændur hafa selt skinn hjá uppboðsfyrirtækinu Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn fyrir um 1,5 milljarða króna á söluárinu sem lauk nú í september. Þetta þýðir að hver minkabóndi hefur haft að jafnaði yfir 23 milljónir króna í hreinn hagnað af búi sínu.

Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda segir að þeir séu eiginlega orðlausir yfir velgengni sinni á söluárinu enda hafi verð á minkaskinnum stöðugt hækkað á undanförnum tveimur árum.

Söluárið stendur frá desember og fram í september og er um fimm uppboð að ræða á því tímabili. Á þessu ári hafa verið seld um 150.000 íslensk minkaskinn hjá Kopenhagen Fur og hefur meðalverð þeirra verið um 10.000 krónur. Því hefur verið selt fyrir hálfan annan milljarð króna af íslenskum skinnum á árinu. Af þeirri upphæð eru rúmlega 40% hreinn hagnaður bændanna og þar sem þeir eru aðeins 26 talsins er meðaltalsbúið með um 23 milljónir króna í hreinan hagnað eftir árið.

Björn segir að þetta skýrist einkum af því að íslensku bændurnir eru með bestu samkeppnisstöðuna í heiminum á þessum markaði, það er mesta bilið á milli framleiðslukostnaðar og söluverðs.

Björn á þó ekki von á að hið háa verð á minkaskinnum haldist til lengdar. Hann telur að það muni lækka eitthvað á desemberuppboðinu sem markar upphaf næsta söluárs.

Á vefsíðu börsen segir að árið hafi verið metár fyrir danska minkabændur en þeir seldu skinn hjá Kopenhagen Fur fyrir um 10,5 milljarða danskra kr. eða um 223 milljarða króna. Meðalverð á skinnum þeirra var rúmlega 500 danskar kr. og hækkaði um rúmlega 100 danskar kr. frá fyrra ári.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×