Innlent

Störfum fækkar á ný - verri staða atvinnumála

Kristján Már Unnarsson skrifar

Samtök atvinnulífsins segja ástand atvinnumála mun alvarlegra en talið var. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar fækkaði heildarvinnustundum á Íslandi um fimm prósent milli ára.

Teikn hafa verið á lofti fyrri hluta ársins um að störfum í landinu færi fjölgandi. Nýjasta vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fyrir ágústmánuð sýnir hins vegar þróun til verri vegar.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir koma mjög á óvart að störfum skuli núna fækka. „Þetta segir okkur að það er miklu alvarlegra ástand heldur en við héldum," segir Vilhjálmur.

Samtök atvinnulífsins benda á að, samkvæmt tölum Hagstofunnar, fækkaði störfum um 1.600 frá ágústmánuði í fyrra meðan fólki á vinnumarkaði fækkaði mun meira eða um um 2.500, sem skýri það að atvinnulausum fækkaði um 900. Þá fækkaði skráðum heildarvinnustundum í landinu um 5%.

Vilhjálmur segir að menn sjái skráð atvinnuleysi fara niður en vinnuaflið í landinu dragist einnig saman. „Það segir okkur að fólk er ennþá að fara í burtu eða þá að draga sig út af vinnumarkaðnum."

Spurning vakni hvort svört vinna sé að aukast og stjórnvöld verði þá spyrna gegn slíku. Þá séu skattahækkanir ekki réttu skilaboðin til atvinnulífsins. Mikilvægast segir Vilhjálmur þó að koma fjárfestingum af stað.

„Að auka fjárfestingarnar. Það er númer eitt, tvö og þrjú, til þess að snúa hlutunum við hérna í alvöru í landinu."
Fleiri fréttir

Sjá meira