Viðskipti innlent

Einna lægstur tekjuskattur á fyrirtæki á Íslandi

BBI skrifar
Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. Mynd/GVA

Aðeins 5 lönd af þeim 34 sem teljast til OECD-ríkjanna hafa lægri skattlagningu á fyrirtæki en Ísland. Stefán Ólafsson, prófessor, segir frá þessu á bloggi sínu en tölurnar miðast við árið 2011.

Stefán segir algera vitleysu að fyrirtæki séu skattpínd á Íslandi, en blogg hans er öðrum þræði svar við skrifum formanns Samtaka Iðnaðarins þar sem því er haldið fram að Íslendingar eigi evrópumet í skattahækkunum.

Mynd/oecd.org

„Fyrir hrun var búið að færa atvinnurekendum, fjárfestum og bröskurum ótrúleg fríðindi í skattamálum á Íslandi. Betri en í sumum erlendum skattaparadísum. Hófleg hækkun skatta á þá eftir hrun hefur litlu breytt. Skilyrðin eru enn góð," segir hann.

Tekjuskattur á fyrirtæki er 20% á Íslandi. Á töflunni hér til hliðar má sjá yfirlit OECD ríkjanna um skattlagningu landa á fyrirtæki. Þar má m.a. sjá að Bandaríkin leggja næstum tvöfaldan skatt á fyrirtæki þar í landi.

Í Viðskiptablaðinu í dag skrifaði Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra, um tekjuskatt á fyrirtæki og sagði hann lægri en víðast hvar annars staðar. „Tekjuskattur fyrirtækja er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum," segir í lok greinarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira