Innlent

Alcatraz sundgarparnir óttast ekki hákarla

BBI skrifar
Árni og Benedikt.
Árni og Benedikt.
Íslensku þrímenningarnir sem ætla að synda yfir San Francisco-flóa voru rétt í þessu að stíga um borð í skipið og leggja af stað. Þeir eru í fjölmennum hóp sundkappa en segjast vera þeir einu sem stefni á að synda á adamsklæðunum einum saman, aðrir ætli að synda í blautbúning.

Þeir Benedikt Hjartarson, Árni Þór Árnason og Jón Sigurðsson taka í dag þátt í því að endursviðsetja einn frægasta fangelsisflótta sögunnar með því að synda frá Alcatraz fangelsinu yfir San Francisco-flóa. Sundið er einir sjö kílómetrar í heild. Fréttastofa náði tali af Benedikt stuttu áður en hann lagði af stað í sundið.

„Sko í okkar augum er sjósund ekki í búning," segir Benedikt, en hópurinn sem ætlar að synda í dag telur yfir þúsund manns og Benedikt sér ekki betur en flestir ætli að vera í blautbúning á leiðinni. Sjórinn er 14°C.

Inntur eftir því hvort hann óttist hákarla neitar Benedikt því. „Við vorum reyndar að synda hérna í gær meðfram bryggjunni og hittum mann sem sagðist vera nýbúinn að sjá hákarla og við ættum að fara varlega," segir hann. Hins vegar telur Benedikt að sundið í dag verði öruggt enda sé hópurinn stór og bátar með í för.

Sundið er árviss viðburður og félagarnir ákváðu að skella sér þetta árið þar sem einn í þeirra hópi varð sextugur á árinu og langaði að gera eitthvað skemmtilegt.


Tengdar fréttir

Ætla að endurtaka frægasta fangelsisflótta sögunnar

Þrír íslenskir sundkappar ætla að endurtaka einn frægasta fangelsisflótta sögunnar í næstu viku og synda yfir San Francisco-flóa frá Alcatraz fangelsinu. Sundkapparnir búast við köldu vatni, hákörlum og sterkum hafstraumum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×