Innlent

Snorri í Betel rekinn vegna skoðana sinna

Snorri Óskarsson.
Snorri Óskarsson.
Snorra Óskarssyni, sem oft er kenndur við Betel söfnuðinn í Vestmannaeyjum, hefur verið sagt upp störfum sem kennari á Akureyri. Snorri bloggar um málið og segir að hann hafi verið kallaður á fund fræðslustjóra Akureyrarbæjar fyrr í dag. Þar hafi honum verið tilkynnt að honum hefði verið sagt upp.

Svo skrifar Snorri: „Ég hef 5 mánaða rétt til launa, 3 mánaða rétt til að kæra málið til Innanríkisráðneytisins og 14 daga rétt til að fá frekari rökstuðning fyrir uppsögninni."

Ástæðan fyrir uppsögninni er umdeilt blogg Snorra þar sem hann bloggar út frá strangkristnum skoðunum sínum, meðal annars um samkynhneigða.

Það var vikublaðið Akureyri sem greindi frá því í febrúar á þessu ári að foreldrar nemanda Brekkuskóla væru æfir yfir því sem þau töldu fordóma og mannhatur Snorra. Kröfðust foreldrarnir því að honum yrði vikið frá störfum. Svo virðist sem Akureyrarbær hafi orðið við þeirri kröfu.

Sjálfur greinir Snorri frá ástæðum uppsagnarinnar á bloggi sínu.

„En hverjar voru þá ástæður uppsagnarinnar? Jú: "Uppsögn á rót að rekja til brota utan starfs sem samrýmist ekki starfi þínu sem grunnskólakennari." Og: "Akureyrarbær telur að með því að skrifa og tjá þig opinberlega á meiðandi hát um samkynhneigð og transfólk hafir þú brotið svo af þér að réttlæti viðbrögð af hálfu bæjarins." Síðan er vísað til skrifa minna á bloggi mbl.is undir heitinu :"Gildum er hægt að breyta" og "Leiðrétting" sem : "eru til þess fallin að vera meiðandi, m.a. gagnvart nemendum og ganga gegn lögum, reglum, samþykktum og skólastefnu."

Hægt er að hlusta á viðtal við Snorra í Harmageddon á X-inu í dag hér fyrir ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×