Innlent

Varna því að fólk kaupi of mikið sælgæti

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Veggspjöld sem hjálpa neytendum við að kaupa ekki óhóflegt magn af sælgæti hafa verið sett upp í nokkrum Krónuverslunum. Fyrirtækið sýnir samfélagslega ábyrgð með verkefninu segir Steinar Aðalbjörnsson næringarfræðingur hjá Matís.

Í Krónunni á Bíldshöfða, Granda og í Lindarhverfinu er nýbúið að setja upp ráðleggingar við nammibarina þar sem neytendur geta séð það sælgætismagn sem hóflegt er að neyta. Matís sá um útreikninginn og miðar við orkuþörf líkamans en samkvæmt honum þykja 35 grömm, eða 8 molar, hóflegt magn fyrir fjögurra til fimm ára börn. Þar eftir gildir reikningsreglan „að bæta einum mola við hvert aldursár" þar til við sextán ára aldur.

Steinar segir ráðleggingarnar eiga eftir að hjálpa foreldrum, ömmum og öfum og öðrum sem hafa oft á tíðum ekki hugmynd um hvenær börn eru komið með of mikið í pokann.

Þetta gæti verið einn af nokkrum þáttum sem skiptir sköpum í holdafari ungra barna og unglinga á Íslandi, segir Steinar. Og hann vonast til að fleiri fylgi fordæmi Krónunnar. „Heilsa þjóðarinnar er verkefni okkar allra, það er verkefni fólksins sjálfs, það er að segja barna og foreldra, það er verkefni stjórnvalda og ekki síst verkefni þeirra sem selja okkur vöru. Hérna er fyrirtæki, Krónan, að stíga rosalega flott skref við að sýna mjög mikla samfélagslega ábyrgð," segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×