Fótbolti

Ísland aldrei sokkið neðar á FIFA-listanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari.
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari. Mynd/Vilhelm
Íslenska knattspyrnulandsliðið er í 131. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í morgun. Ísland féll um tíu sæti frá síðasta lista.

Ísland hefur aldrei verið neðar á listanum. Gamla metið var 122. sæti en landsliðið var þar í júní í fyrra. Styrkleikalisti FIFA hefur verið tekinn saman síðan í ágúst 1993.

Liðið hefur ekkert spilað frá því að síðasti listi var gefinn út en stig eru reiknuð út frá árangri liðsins í landsleikjum síðustu fjögurra ára. Sigurleikir gegn Slóvakíu og Færeyjum í mars 2008 eru því dottnir út og skýrir það fallið að þessu sinni.

Lars Lagerbäck tók við landsliðinu um áramótin og hefur liðið spilað tvo leiki undir hans stjórn - gegn Japan og Svartfjallalandi í febrúar síðastliðnum. Báðir þeir leikir töpuðust.

Næstu leikir verða vináttulandsleikir gegn Svíþjóð og Frakklandi í lok maí.

Spánn er í efsta sæti listans eins og áður en Holland féll niður í fjórða sætið. Þýskaland er í öðru sæti og Úrúgvæ í því þriðja.

Sjá listann í heild sinni á heimasíðu FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×