Viðskipti innlent

Tekjulitlir eldri borgarar greiða auðlegðarskatt í stórum stíl

Meira en þriðjungur fjölda greiðenda auðlegðarskatts eru 65 ára og eldri. Tveir þriðju þeirra eru með undir 5 milljónir króna í árslaun. Margir geta ekki greitt skattinn nema ganga á eignir.

Þetta verður rætt á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í dag um auðlegðarskatt undir yfirskriftinni „Sanngjarnt framlag eða ósanngjörn eignaupptaka?".

VÍB hefur látið taka saman upplýsingar um auðlegðarskattinn sem leiða í ljós að þriðjungur þeirra sem greiða skattinn eru 65 ára og eldri. Um tveir þriðju þeirra eru með undir 5 milljónum króna í árslaun. Skattinum er ætlað að auka tekjur ríkisins af vaxtagefandi eignum einstaklinga.

Aftur á móti er stór hluti eigna eldri borgara bundinn í húsnæði sem engar tekjur eru af. Auðlegðarskatturinn hefur bitnað illa á þessum tekjulitlu einstaklingum sem hafa í sumum tilvikum þurft að ganga á eignir til að greiða skattinn. Tekin verða dæmi á fundinum af slíku en t.a.m. hafa eldri hjón skilið eftir langt hjónaband til að geta haldið húsinu sínu lengur. Auðlegðarskatturinn miðar við eignir umfram 75 milljónir króna á einstakling en 100 milljónir hjá hjónum.

Á fundinum verða pallborðsumræður þar sem meðal annars verður farið yfir hvort skatturinn sé sanngjarn og hvort markmið hans hafi náðst. Í pallborði verða Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, Guðrún Björg Bragadóttir, skatta- og lögfræðisviði KPMG og Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×