Lífið

Elín Hirst horfir til Bessastaða

Elín Hirst og sonardóttir hennar Margrét Stefanía Friðriksdóttir Hirst.
Elín Hirst og sonardóttir hennar Margrét Stefanía Friðriksdóttir Hirst. mynd/stefán karlsson
Elín Hirst gefur sér góðan tíma til að sinna ömmuhlutverkinu með eins árs gamalli sonardóttur sinni, Margréti Stefaníu Friðriksdóttur Hirst, ásamt því að huga að góðgerðamálum og framtíðinni. Hún rifjar upp með Lífinu eftirminnileg atvik á þrjátíu ára löngum farsælum fjölmiðlaferli.

Nú styttist í 30 ára starfsafmæli þitt sem fjölmiðlamaður. Ef þú lítur um öxl og skoðar fjölmiðlaferil þinn í nokkrum orðum? Ég hef gegnt ábyrgðarstöðum, störfum varafréttastjóra og fréttastjóra, bæði á fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar og á fréttastofu Sjónvarpsins. Auk þessa hef ég framleitt framleitt einar fimm sögulegar heimildarmyndir sem sjálfstæður framleiðandi og einnig heimildarmyndir um önnur efni s.s. börn með Downs-heilkenni og fleira. Ég hef einnig verið fréttaþulur á þriðja áratug og því tíður gestur á heimilum fólks, enda heilsa mér margir eins og gömlum og góðum vini. Það er notalegt.

Hvað stendur upp úr þegar þú lítur til baka? Það sem stendur upp úr er skemmtilegur og skapandi starfsferill með hæfileikaríku og flottu fagfólki. Ég hef kynnst þvílíku úrvalsfólki í gegnum störf mín á fjölmiðlunum sem myndi sóma sér vel hvar sem væri í heiminum. Ég sá þetta best þegar ég vann með teymi frá bandaríska fréttaskýringaþættinum 60 mínútur frá CBS í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli en Þorvarður Björgúlfsson, eigandi kvikmyndafyrirtækisins Kukls, sá um þá heimsókn og ég aðstoðaði hann. Íslenska sjónvarpsfólkið í þeim leiðangri var í heimsklassa, og þarna vorum við að vinna með heimsmeisturunum í sjónvarpsþáttagerð ef svo má að orði komast.

Áttu eftirminnilegt augnablik á skjánum sem þú vilt deila með okkur? Ég held að það erfiðasta sem ég hef upplifað sé þegar við fluttum Sjónvarpið af Laugavegi 176 upp í Efstaleiti árið 2000. Við tókum um leið í gagnið nýtt útsendingakerfi sem stríddi okkur mikið fyrstu vikurnar. Eitt kvöldið sem oftar var ég fréttaþulur og ég held að ég hafi verið meira og minna á skjánum í 30 mínútur að biðja fólk afsökunar og biðja það um að hafa biðlund því nýja kerfið var kolstíflað og engar fréttir birtust á skjánum. Þetta var mikil þolraun og mig langaði mest að skríða undir fréttaborðið og fela mig.

Lá alltaf fyrir að fara í fjölmiðla? Nei, alls ekki. Ég byrjaði í viðskiptafræði en leiddist námið og hætti eftir eitt ár og kom mér til útlanda í háskóla. Það var gríðarlega mikilvæg lífsreynsla fyrir mig að fara til útlanda í nám rúmlega tvítug og brjóta allar brýr að baki mér því foreldrum mínum leist ekkert sérlega vel á blikuna í fyrstu, en svo skilaði ég mér heim með háskólagráðu, þeim til mikils léttis, auk þess sem ég hafði kynnst hinum stóra heimi og lært að standa á eigin fótum, og ég hef búið að því alla tíð.

Hvaða lærdóm hefurðu helst dregið af reynslu þinni í fjölmiðlum? Pólitík er eitur inni á fjölmiðlum. Þá á ég við bæði flokkapólitík, eigendapólitík eða aðra sérhagsmunapólitík. Fréttastofur eru ekkert annað en fólkið sem þar starfar. Því eru stöðug opin skoðanaskipti, gagnrýni á fréttamat og vinnubrögð lífsnauðsynleg inni á hverri fréttastofu sem vill kallast hlutlæg. Öflugar fréttastofur sem fara að líta of stórt á sig og gleyma þessu eru hættulegar fyrir lýðræði og tjáningarfrelsið í landinu. Hvað Ríkisútvarpið varðar hef ég áhyggjur af því að verið sé að gera það of háð valdhöfunum, en fjármunir til þess eru í raun skammtaðir úr fjármálaráðuneytinu nú um stundir. Gömlu afnotagjöldin voru að mörgu leyti skárra kerfi og tryggðu betur fjárhagslegt sjálfstæði RÚV.

Ertu hætt í fjölmiðlum? Nei, hreint alls ekki.

Hefur þú upplifað það að vera þekkt á Íslandi? Já, nokkrum sinnum. Helst var það þegar ég fór á skemmtistaði, en ég hætti því bara. Þá vildi fólk fara að ræða um ýmsa persónulega hluti eins og hvernig ég klæddi mig og hvernig hárið á mér væri. Mér fannst þetta mjög óþægilegt.

Hvernig upplifun er það að vera kona sem hefur klifið metorðastigann? Æ, mér finnst þessi metorðastigi ósköp mikið hjóm. Það eina sem ég vil er að láta gott af mér leiða og fá að starfa í friði við það sem mér finnst skemmtilegast og geri best. Ég hef enga sérstaka þörf fyrir að ráða og stjórna, en axla auðvitað þá ábyrgð sem mér er falin með glöðu geði, ef ég á annað borð tek að mér slík verkefni.

Hvernig hefur gengið að tvinna saman álagsvinnu og uppeldi barna þinna? Ég var oft þjökuð af samviskubiti gagnvart börnunum mínum þegar þau voru lítil. Vinnan var svo krefjandi og vinnutíminn svo ófjölskylduvænn, fram á kvöld og um helgar. Ég held hins vegar að ég hafi verið góð mamma og naut þess að vera með sonum mínum í öllum mínum frístundum. Við höfum alltaf verið miklir vinir og mjög samrýmd og ég man að ég skrapp oft í hádeginu og við fórum og fengum okkur pitsu eða hamborgara til að stytta daginn.

Nú ertu orðin amma – hvernig tilfinning er það? Það er mjög góð tilfinning. Sonardóttir mín heitir Margrét Stefanía Friðriksdóttir Hirst og er eins árs. Við erum miklar vinkonur og oft að bralla eitthvað saman. Við kubbum mikið, púslum og lesum. Dýrin í Hálsaskógi eru í miklu uppáhaldi hjá okkur um þessar mundir en Margrét er stundum svolítið hrædd við Mikka ref. Við erum oft mjög menningarlegar og förum til dæmis í barnadeildina í Borgarbókasafninu og dundum okkur. Um daginn fórum við og skoðuðum Alþingi og Dómkirkjuna og svo vorum við teknar tali á Austurvelli af sjónvarpsmönnum sem voru að spyrja okkur um einhver bankahrunsmál. Margrét Stefanía er því orðin mjög meðvitaður þjóðfélagsþegn aðeins ársgömul. Margrét Stefanía er líka svo heppin að eiga afa sem er mjög duglegur að passa hana og yndislega móðurömmu og afa sem bera hana á höndum sér.

Hvað gerið þið fjölskyldan helst saman í fríum? Við förum á skíði og göngum á fjöll með hundinn á sumrin. Ég er mjög hrifin af gönguskíðum en ég er líka þokkaleg á svigskíðum. En hvað gerir þú til að rækta sjálfa þig? Stunda jóga og hreyfi mig.

Nú varstu stödd á Ísafirði í vikunni – hvað ertu að takast á við þessa dagana? Það er leyndarmál hvað ég var að gera á Ísafirði, en kemur í ljós í haust. Annars er ég að skipuleggja fleiri fjölmiðlanámskeið fyrir konur sem vilja auka færni sína í að fara í sjónvarpsviðtöl. Ég er búin að fara í gegnum svona námskeið með fimmtíu konum frá áramótum, læknum, prestum, verkfræðingum, lögfræðingum og endurskoðendum. Námskeiðið er fyrir konur því ég vil stuðla að því að auka þátttöku kvenna í opinberri umræðu.

Mér finnst of fáar konur tilbúnar að tjá sig og það vil ég laga. Við eigum svo margar frábærar konur á öllum sviðum samfélagsins. Ég held að margar okkar séu með fullkomnunaráráttu og við óttumst að standa okkur ekki nógu vel ef við gefum kost á okkur í sjónvarpsviðtal. Það eru óþarfa áhyggjur en oft þarf bara eitt kvöldnámskeið til að yfirvinna þennan ótta. Þá er ég að undirbúa ásamt fleira góðu fólki, þar á meðal konunum í á Allra vörum, LSH, Umhyggju og RÚV að hleypa af stað stórri landssöfnun í haust til að opna miðstöð sem aðstoðar veikustu börnin okkar í landinu, börn með sjaldgæfa, alvarlega, langvinna sjúkdóma, sem sum þurfa öndunarvél til að geta lifað. Þetta eru um 50 börn hér á landi en þessi hópur hefur stækkað mikið á síðustu tíu árum. Börn með slíka sjúkdóma lifðu ekki af áður fyrr en gera það í dag, en eiga afar erfitt líf sem og fjölskyldur þeirra. Þetta er verkefni sem brennur á okkur árið 2012 að mæta þörf sem nú er brýn að hlúa betur að allra veikustu börnunum okkar. Ég er reyndar í fleiri slíkum verkefnum, til dæmis á vegum Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Svo í dag fer dágóður tími hjá mér í hverri viku í sjálfboðastörf tengd mannúðarmálum, sem er mjög gaman og gefandi. Einnig er ég að ljúka við gerð heimildarmyndar um stofnfrumur ásamt Ásvaldi Kristjánssyni kvikmyndagerðarmanni sem er afar spennandi og skemmtilegt verkefni.

Þú varst viðloðandi pólitík fyrir allmörgum árum hjá Sjálfstæðisflokknum, geturðu hugsað þér að fara aftur í pólitíkina? Nei, ég hef aldrei verið í pólitík, nema að ég slysaðist inn í stjórn Heimdallar þegar ég var rúmlega tvítug en var fljót að hætta þar vegna starfa minna sem blaðamaður. Flokkapólitík og hagsmunagæsla í tengslum við hana fer í raun mjög gegn mínu eðli.

Ég hugsa eins og fréttamaður, vil alltaf skoða allar hliðar, þess vegna valdi ég líka fréttamennsku sem ævistarf. Það fer oft í taugarnar á eiginmanninum sem er mjög pólitískur og mikill sjálfstæðismaður hvað ég læt illa að stjórn. Samt hefur sá stimpill loðað við mig alla tíð að ég sé eldheitur sjálfstæðis­maður, líklega af því að margir vina okkar eru þekktir sjálfstæðismenn. Ég á mig sjálf.

Nú ert þú ein þeirra kvenna sem nefnd hefur verið á nafn í forsetaumræðunni – að öllu gamni slepptu, er það eitthvað sem þú getur raunverulega hugsað þér að skoða? Já, það get ég. Það eru hins vegar ýmis ljón á veginum. Fyrsta ljónið er núverandi forseti. Ætlar hann að gefa kost á sér í fimmta sinn eður ei. Hann stóð illa eftir hrunið, og tengsl hans við almenning höfðu beðið skaða, en svo hefur hann náð aftur sambandi við fólkið í landinu til dæmis með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn. En að mínum dómi er þetta orðið ágætt eftir sextán ár í embætti. Það þarf að hleypa frískum vindum inn á Bessastaði. Fleiri ljón eru á veginum fyrir hugsanlega forsetaframbjóðendur. Kostnaður við slíkt framboð er óheyrilegur og fjármálin voru frambjóðendum árið 1996 þrautin þyngri. Síðast en ekki síst er afar óljóst um stöðu forseta Íslands í framtíðinni vegna boðaðra stjórnarskrárbreytinga. Hvað mig sjálfa snertir þá hef ég ekki hugmynd um hvort ég hefði eitthvað fylgi meðal kjósenda, en það er að sjálfsögðu lykilatriði. Ég gef því minni líkur en meiri að ég verði næsti húsráðandi á Bessastöðum, segir Elín og kímir.

Hvaða áherslur leggur Elín Hirst forseti Íslands á? Ég vil færa forsetaembættið nær fólkinu í landinu þar sem forsetinn yrði fremstur á meðal jafningja sem ynni með þjóðinni að hinu góða hverju nafni sem það nefnist. Svo einfalt er það. Allt annað yrðu praktísk úrlausnarefni með þetta meginþema.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir og af hverju? Forfeður mínir sem þorðu að taka þá áhættu að flytja til Vesturheims með fjögur ung börn í leit að betri lífskjörum, sem þeim tókst. Þetta fólk sem ekkert átti var líka annálað fyrir góðmennsku, gjafmildi og hjálpsemi við þá sem þurftu á að halda.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár? Ætli við Margrét Stefanía verðum ekki að bauka eitthvað skemmtilegt saman með hinum barnabörnunum sem þá hafa bæst í hópinn.

Eitthvað að lokum? Já, þú vilt að ég nefni einhverja speki og í því sambandi er ég mjög hrifin af því sem Albert Einstein sagði: að árangur væri 1% snilli og 99% vinna. Þetta finnst mér afar gott veganesti í lífinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×