Innlent

Ólafur Börkur vildi vísa málinu frá

Karl Axelsson, verjandi Baldurs, segir niðurstöðuna vonbrigði.
Karl Axelsson, verjandi Baldurs, segir niðurstöðuna vonbrigði. mynd/ gva.
Einn dómari skilaði sérákvæði í Hæstarétti í dag í máli Baldurs Guðlaugssonar. Það var Ólafur Börkur Þorvaldsson. Hann vildi vísa málinu frá dómi. Í þeim hluta sératkvæðisins er hann fjallar um efnislega hlið málsins kemst hann jafnframt að þeirri niðurstöðu að ef ekki séu efni til að vísa málinu frá dómi, beri að sýkna.

Sá háttur er hafður á að dómarar rökstyðji efnislega niðurstöðu í sératkvæði ef þeir fá ekki aðra dómara með sér um frávísun máls.

Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavikur fyrir stundu. Birta átti dóminn síðdegis í gær en það frestaðist þar sem enn átti eftir að rita dómsorðið. Slíkt mun vera fáheyrt að sögn skrifstofustjóra Hæstaréttar sem Vísir ræddi við í gær.

Niðurstaðan eru vonbrigði fyrir Baldur, en hann var ekki viðstaddur dómsuppsöguna sjálfur. Verjandi hans, Karl Axelsson, kynnti honum dóminn strax að dómsuppsögu lokinni. „Og niðurstaðan er mikil vonbrigði," sagði Karl sem bætti við að ekki hefðu neinar ákvarðanir verið teknar um framhald málsins, en hann á eftir að kynna sér dóminn betur. Karl sagði þó að brotið hefði verið á rétti skjólstæðings síns. Málsmeðferðin hefði tekið allt of langan tíma.

Eins og staðan er nú, þarf Baldur að afplána tveggja ára fangelsisvist, en dómurinn er ekki skilorðsbundinn.

Baldur var sakfelldur fyrir innherjasvik þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum í tveimur hlutum hinn 17. og 18. september 2008 fyrir samtals 192 milljónir króna, en á sama tíma var hann ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og nefndarmaður í sérstökum samráðshópi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×