Skoðun
Mikael Allan Mikaelsson, doktor í atferlisfræðilegum erfðavísindum

ADHD: Greining, meðferð og umhverfi

Mikael Allan Mikaelsson skrifar

Geðraskanir hafa ætíð verið efniviður í eldfimar umræður og fengum við Íslendingar að finna smjörþefinn af því á vordögum síðasta árs þegar skammarleg deila um athyglisbrest með ofvirkni (ADHD, skv. alþjóðlegri skammstöfun) leit dagsins ljós í kjölfar þáttaraða Kastljóss um Læknadóp. Í þáttaröðinni var fjallað um mögulega ofnotkun á rítalín lyfjum og var birt uggvekjandi tölfræði sem sýndi að kostnaður vegna rítalíns hefur aukist frá um 200 milljónum króna árið 2007 og upp í meira en 550 milljónir króna árið 2010, en rítalín er það lyf sem oftast er notað í meðferð við ADHD.

Í viðtali við Birnu Jónsdóttur formann Læknafélags Íslands lét hún frá sér þau ummæli að ADHD greining í fullorðnum væri byggð á veikum vísindalegum grunni, og að sama ætti við um lyfjameðferð á þessum hópi.

Þessi rangfærsla var svo bergmáluð í greinarskrifum Gunnars Smára Egilssonar, formanni SÁÁ, á vefsíðu samtakanna sem gekk þó skrefi lengra og fullyrti að Íslendingar væru heimsmeistarar í rítalín neyslu og að ADHD greining (og lyfjameðferðin við henni) væri yfir höfuð umdeild innan veggja læknisfræðinnar. Í þessum sama pistli Gunnars var hann harðorður í garð Grétars Sigurbergssonar geðlæknis, en Grétar var nefndur í fjölmiðlum fyrir að hafa ávísað hvað mest af lyfseðilsskyldum rítalín lyfjum á Íslandi.

Greinaskrif Gunnars Smára vöktu hörð viðbrögð hjá ADHD samtökunum og sumum geðlæknum (þar á meðal Grétari sjálfum), en í kjölfarið á þessari skammarlegu deilu komu því miður upp á yfirborðið tilfelli þar sem einstaklingar greindir með ADHD urðu fyrir aðkasti og í sumum atvikum neituðu börn með ADHD að taka lyfin sín. Þetta var dapurlegt niðurlag, þar sem margir þessara einstaklinga eiga nógu erfitt með að lifa við þessa geðröskun og þurfa síst á slíkum fordómum að halda. Auk þess sem umræðan snérist einmitt ekki um þá einstaklinga með ADHD sem taka lyfin sín og hafa bót af.

Augljóslega var hér um afar viðkvæmt viðfangsefni að ræða, en engu að síður var þetta mikilvægt málefni sem þarfnaðist skynsamlegrar og jafnvel gagnrýninnar umræðu með stóískri yfirvegun. Sú var því miður ekki niðurstaðan, vegna þess að umræðan leystist upp í einfaldanir, alhæfingar og sleggjudóma á báða bóga, sem síðar leiddu til þess að pólitíska réttsýnin kæfði niður umræðuna. Áhyggjuefni Birnu og Gunnars Smára var að vissu leyti skiljanleg í ljósi þeirrar geðsjúkdómavæðingar sem hefur átt sér stað víða í vestrænu samfélagi síðastliðna áratugi vegna pólitískra áhrifa lyfjaiðnaðarins á geðheilsukerfið (þá sérstaklega vestanhafs í Bandaríkjunum) og öfga í pólitískri réttsýni. Auk þess hafa sumar kannarnir bent til þess að um 90% fíkniefnaneytenda hafi notað rítalín og að hjá um 60% sprautufíkla sé rítalín meðal fíkniefna sem er hvað mest notað. Slík misnotkun á rítalín lyfjum var meðal annars staðfest af Andrési Magnússyni geðlækni. Ummæli Gunnars Smára um að Íslendingar væru heimsmeistarar í rítalín neyslu voru heldur ekki endilega fjarri raunveruleikanum, enda komu fram gögn við upphaf síðasta árs frá Sameinuðu Þjóðunum sem bentu til þess að Íslendingar væru stórtækastir í rítalín neyslu á árunum 2008-2009 í samanburði við önnur lönd. Því vekur það furðu þegar sumir geðlæknar neita staðfastlega að Íslendingar noti rítalínlyf í meiri mæli en önnur lönd og hafna því alfarið að neysla rítalíns sé óhófleg á Íslandi, án þess að setja fram trúverðugar ástæður til að véfengja slíkar hugmyndir og þrátt fyrir þau gögn sem liggja fyrir.

Réttara að spyrja hvort greiningin sé áreiðanleg frekar en umdeild

Á meðan áhyggjur formanns SÁÁ um óhóflega ávísun á rítalín lyfjum á Íslandi geta talist réttmættar, voru fullyrðingar hans um að ADHD greining (og lyfjameðferðin við henni) væri umdeild innan vísindasamfélagsins, því víðs fjarri. ADHD er afar raunveruleg geðröskun, og eiga einstaklingar með slíka röskun við raunveruleg vandamál að stríða. Algengt er að manneskjur með geðröskunina eigi í erfiðleikum með nám og félagsleg samskipti en á sama tíma ber að ítreka að með nægjanlegum samfélagslegum skilningi og stuðningi er flestum þeirra ekkert ómögulegt. Stundum þurfa þessir einstaklingar að leggja harðar að sér, en af nákvæmlega þeirri ástæðu er samfélagslegur stuðningur og fordómaleysi mikilvægt. Fjöldi rannsókna hafa bent til þess að einkenni þessarar geðröskunar stafi í mörgum tilfellum af taugaboðefna ójafnvægi í ákveðnum hlutum heilans (t.d. framennisberki); t.d. vegna of mikilla eða of lítilla framleiðslu á taugaboðefnunum dópamíni og noradrenalíni.

Einnig liggur fyrir gífurlegt magn vísindagagna sem sýna að rítalín lyfjameðferð getur borið árangur hjá börnum, unglingum og fullorðnum. Það sem gerir hins vegar geðlyf á borð við rítalín svo berskjaldað fyrir óhóflegri ávísun og óhóflegri neyslu hefur lítið með það að gera hvort að ADHD greining sé umdeild fremur en áreiðanleika slíkrar greiningar. Vandinn liggur í því að ólíkt öðrum líkamlegum sjúkdómum eru geðsjúkdómar sjaldan óyggjandi í eðli sínu og því fjarri því að vera auðskilgreinanlegir. Til að mynda er munurinn á milli „geðheilbrigðs" einstaklings og einstaklings með geðröskun oft fremur af megindlegum toga fremur en eigindlegum. Með öðrum orðum, þá snýst greining á geðröskunum sjaldan um það hvort einstaklingur sé flokkunarlega séð með geðröskun eður ei, heldur hvort ákveðið sálfræðilegt einkenni (t.d. ákveðinn hugsunarháttur eða hegðun) eigi sér stað í of miklum eða of litlum mæli (t.d. varðandi tíðni eða stig). Ef afleiðingar þess hafa skaðleg áhrif á daglegt líf einstaklingsins er líklegt að hann fái geðraskana stimpil. Til dæmis getur það verið afar óæskilegt að búa yfir „óeðlilega" mikilli athyglisþörf, rétt eins og það getur verið óæskilegt að vera of feiminn. Sama má segja um sálfræðileg einkenni á borð við ofvirkni og vanvirkni, eða athyglisbrest og áráttu. Vandinn liggur einmitt í því hvar og hvernig við úrskurðum hvort hegðun eigi sér stað „of oft" eða „of sjaldan" (eða hvort persónuleikaeinkenni sé í „of miklum mæli" eða „of litlum"), og á hvað grunni við skilgreinum eitthvað sem „óæskilegt". En því miður er algengt að slíkur úrskurður sé byggður á huglægu mati.

Slík vandkvæði eru sérstaklega líkleg til að eiga sér stað við greiningar á geðröskunum á borð við ADHD, þar sem sálfræðilegu einkennin sem skilgreina þessa röskun (þ.e. athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi) eru svo algeng og ríkjandi meðal barna og unglinga almennt. Eins er það miður að þetta eru vandkvæði sem margir geðlæknar gera lítið úr. Á meðan fjöldi barna og unglinga munu vera réttilega greind með ADHD (og myndu fá slíka greiningu nánast óháð því hvaða geðlæknir/sálfræðingur á í hlut), eiga óhjákvæmilega eftir að verða tilfelli þar sem einstaklingar sem eru raunverulega með ADHD verða ekki greindir með röskunina, rétt eins og í öðrum tilfellum munu einstaklingar vera ranglega greindir með geðröskunina. Í sumum tilfellum getur slík misgreining átt sér stað vegna þess að ólíkir geðlæknar byggja sínar greiningar á eigin huglægum viðmiðum, og í sumum tilfellum munu viðmiðin vera of frjálslynd eða of íhaldsöm. Í öðrum tilfellum geta ADHD einkenni átt sér stað vegna óæskilegra umhverfisþátta eða hreinlega verið tímabundin. Einnig munu verða tilfelli þar sem að ákveðnir geðlæknar eru hreinlega ekki starfi sínu vaxnir.

Þrátt fyrir að samfélag sálfræðinga, geðlækna og annarra vísindamanna, hafi í gegnum síðastliðna áratugi lagt mikinn metnað í að gera DSM-greiningakerfið fyrir geðraskanir eins hlutlægt og skilvirkt og völ er á, er hvorki hægt að líta á flokkunar-kerfið sjálft né greiningaviðmið þess sem vísindalega hlutlausan mælikvarða á geðheilsu fólks, hreinlega vegna þess hversu mikið það er háð huglægu mati og hæfni greinenda, hvort sem sálfræðingur/geðlæknir, foreldri eða kennari á í hlut. Aftur á móti er mikilvægt að brýna að þó að ADHD greining geti verið óáreiðanleg þegar hún reiðir einungis á huglægar umsagnir foreldra og kennara, geta ADHD einkenni (t.d. athyglisbrestur og hvatvísi) verið áreiðanlega mæld með atferlisfræðilegum mælitækjum (t.d. Test of Attention and Impulsivity in Children og Attention Network Test). Á meðan að notkun slíkra mælitækja gæti gert greiningu eitthvað tímafrekari og dýrari, myndi hún óhjákvæmilega styrkja áreiðanleika ADHD greininga. Dr. Fjóla Dögg Helgadóttir skoðaði til að mynda tíðni ADHD í Vestur Ástralíu og bar saman við hvar vissir geðlæknar störfuðu og kom í ljós að „tíðni" ADHD jókst eftir því hvar vissir geðlæknar störfuðu, en niðurstöður sýndu einnig að í slíkum tilfellum voru geðlæknarnir líklegri til að reiða sig einvörðungu á umsagnir foreldra og kennara.

Vandkvæði lyfjameðferðar

Það liggur enginn vafi á því að rítalín lyfjameðferð hefur reynst afskaplega skilvirk í að draga úr ADHD einkennum, eða í um 80% tilfella, og er talið að lyfin virki með því að auka framleiðslu dópamíns og/eða hindra endurupptöku þesss í taugamótum viðeigandi heilastöðva. En þrátt fyrir að lyfjameðferð hafi reynst hafa bætandi áhrif á ADHD einkenni í meirihluta tilfella, má ekki líta framhjá þeirri staðreynd að lyfjameðferð er fjarri því að vera alltaf skaðlaus. Til að mynda geta alvarlegar hliðaráverkanir stundum átt sér stað í kjölfar hennar, en rannsóknir hafa sýnt að slíkar meðferðir geta leitt til aukins blóðþrýstings, vaxtarhömlunar, þyngdartaps og svefnleysis (sem útaf fyrir sig getur haft skaðlega áhrif á geðheilsu).

Auk þess getur ofnotkun á slíkum lyfjum orsakað geðrofseinkenni. Það er líka varhugavert að þó að rítalín lyfjameðferð beri árangur í um 80% tilfella, þýðir það einnig að slík lyfjagjöf gerir lítið sem ekkert gagn í um það bil 20% tilfella. Einnig, í ljósi þess að ADHD einkenni geta orðið fyrir tilstilli af annað hvort of miklu dópamíni eða of litlu dópamíni í ákveðnum heilastöðvum, og með það í huga að rítalín lyfjameðferðir auka dópamín magn í þessum sömu heilastöðvum, er engin ástæða að ætla að slíkar lyfjameðferðir myndu gera nokkuð gagn í tilfellum ef einstaklingar eiga við of mikla dópamín framleiðslu að stríða (fremur en of litla). Þar sem ekki er mögulegt að vita fyrirfram hvaða einstaklingar hafa gagn af slíkri meðferð (þ.e.a.s. þessi 20%), vakna eðlilega upp spurningar um hversu mikil eftirfylgnin sé með þeim, og hvernig geðlæknar bregðist við ef einstaklingar með ADHD sýna engin viðbrögð við lyfjunum (eru þeir teknir af lyfjunum eða er lyfjagjöf aukin)?

Annað augljóst vandamál varðandi ADHD lyfjameðferðir er að þær bæla einungis niður ADHD einkennin á meðan meðferðinni stendur, en um leið og lyfjameðferðin hættir koma einkennin upp aftur. Á meðan rítalín lyfjameðferðir eru í dag skilvirkasta úrræðið við ADHD, sérstaklega í alvarlegustu tilfellunum, hefur fjöldi rannsókna bent til þess að íhlutanir í umhverfi einstaklinga með ADHD geta einnig haft verulega jákvæð áhrif á geðröskunina án þeirra slæmu aukaverkana sem stundum fylgja lyfjameðferð. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að reglulegar iðkanir á ýmsum hópíþróttum, sjálfsvarnarlistum og jóga draga verulega úr ADHD einkennum. Auk þess hafa nýlegar rannsóknir vísindamanna hjá Karolinsku rannsóknarstofnuninni í Svíþjóð nýlega sýnt fram á að hugræn-þjálfun á svokölluðu vinnsluminni hjá einstaklingum með ADHD getur dregið úr einkennum eftir einungis fimm vikur og eru framfarir af þessari þjálfun enn viðvarandi þremur mánuðum eftir að þjálfun lýkur.

Umhverfið skiptir máli

Ein af þeim ranghugmyndum sem víða má finna um eðli AHDH varðar orsakir geðröskunarinnar, en til að mynda má finna eftirfarandi lýsingu á heimasíðu ADHD samtakanna;

„Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Rannsóknir benda til að orsaka sé að leita í truflun í boðefnakerfi heila á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn hegðunar. Erfðir gegna mikilvægu hlutverki, talið er að erfðir útskýri 75-95% ADHD einkenna."

Þrátt fyrir að ADHD einkenni geti átt rætur sínar að rekja til ójafnvægis í ákveðnum taugaboðefnakerfum (t.d. dópamíns og noradrenalíns) í ákveðnum hlutum heilans, þýðir það hreinlega að ADHD einkennin og taugaboðefna ójafnvægið eru ólíkar birtingarmyndir (ein atferlisleg en önnur líffræðileg) sömu geðröskunar. Taugaboðefna ójafnvægið sem undirliggur ADHD einkennunum er því ekki orsökin sjálf, heldur getur það ásamt sjálfum einkennunum verið afleiðing orskaka sem geta BÆÐI verið af líffræðilegum (þ.e. gena-tengdum) og umhverfislegum toga, og þá sérstaklega samspilið þeirra á milli. Vissulega hafa rannsóknir bent til þess að erfðaþátturinn á bakvið ADHD sé afar hár eða um 80%, hins vegar gefa þessar niðurstöður einnig til kynna að í hátt í um 20% tilfella geti ADHD einkennin átt rætur sínar að rekja til umhverfisþátta einna og sér.

Til dæmis, dópamín og noradrenalín framleiðsla í framennisberki er afar viðkvæm fyrir umhverfisáhrifum og getur breyst vegna þreytu eða stress. Þar af leiðandi geta umhverfisaðstæður haft veruleg áhrif á framleiðslu þessara taugaboðefna og framkallað einkenni sem svipa til þeirra ADHD einkenna sem eiga sér líffræðilegra orsakir. Slíkar aðstæður eru líklegri til að eiga sér stað þegar börn og unglingar lifa við streitumikið umhverfi, t.d. erfiða skilnaði, alvarleg veikindi, dauðsfall eða félagslega streitu í skólanum. Í þessu samhengi hafa rannsóknir sýnt fram á samband milli óæskilegra uppeldisaðstæðna og örðugleika á milli foreldra og ADHD einkenna barna, en auk þess hefur fjöldi rannsókna sýnt að streituvaldandi umhverfi snemma á lífsleiðinni getur haft alvarlegar afleiðingar á þroska taugakerfisins. Einnig hefur fjöldi rannsókna sýnt að óhófleg áfengisdrykkja og reykingar á meðgöngu geti aukið líkurnar á ADHD hjá börnum þessara mæðra.

Margt bendir líka til þess að áhrif umhverfisþátta hafi verið gríðarlega vanmetin á síðastliðnum áratugum, hreinlega vegna þess hversu margir draga þá ályktunarvillu að ef geðröskun mælist með háan erfðaþátt þá hljóti umhverfisþátturinn að vera lítill. Hér er mikilvægt að gera greinarmun á milli erfðaþátta og genaþátta. Sú hugmynd að erfðaþáttur feli nauðsynlega í sér genaþátt sem skilgreinir líffræðilegar orsakir er gömul og úrelt. Meðal annars getur umhverfisþáttur hlaðist á erfðaþátt ef að í einhverjum ADHD tilfellum stafi orsökin af samspili milli gena og umhverfis, og í raun er mjög líklegt að slíkt samspil spili veigamikið hlutverk í þróun geðröskunarinnar, þar sem mikið misræmi liggur á milli hás erfðaþáttar hjá einstaklingum með geðröskunina og lágs genaþáttar. Sem dæmi, þó að erfðaþátturinn mælist hátt í um 80% af ADHD tilfellum, hafa helstu ADHD-tengdu genin einungis getað skýrt um 1-1.5% af ADHD tilfellum. Auk þess sem að breytileiki í DAT geninu, sem er talið vera meðal lykil áhættuþátta fyrir ADHD, fyrirfinnst í um 90% manna (í sbr. við einungis þær 5-8% manneskja sem greinast með geðröskunina). Aftur á móti hafa ýmsir genaþættir í samspili við reykingar á meðgöngu eða slæmt uppeldi, aukið verulega líkurnar á þróun ADHD. Hér er þó nauðsynlegt að ítreka að slík samspil útskýra einungis SUM ADHD tilfella, og það þýðir alls ekki að svo sé staðreyndin í flestum tilfellum.

Áhrif umhverfisþátta geta einnig gengið í gegnum erfðir. Til dæmis geta umhverfisþættir mögulega leitt til stökkbreytinga í genamengi mannsins í genum sem spila lykilhlutverk í viðeigandi taugaboðefnakerfum eða haft áhrif á svokallaða utangena-erfðaþætti (á ensku; epigenetic) sem stjórna starfsemi þessara gena. Utangena-erfðaþættir eru afar berskjaldaðir fyrir umhverfisáhrifum, en breytingar á starfsemi þeirra eru enn líklegri til þess að ganga í gegnum erfðir. Með öðrum orðum þá getur umhverfi manneskju mögulega haft áhrif á utangena-erfðaþætti hennar og þar með ákveðin áhrif á genastarfsemi, sem spilar hlutverk í athygli, virkni og hvatvísi, og ýtt undir eða dregið úr líkum á ADHD. Slíkar breytingar á utangena erfðaþáttum geta erfst til barna þessara einstaklinga og þar með aukið eða dregið úr líkum á ADHD hjá börnunum, en þessi sama utangena-erfðabreyting getur síðan erfst niður til þar næstu kynslóða.

Í lokin

Á meðan mikil nauðsyn er á opinni, gagnrýnni og skynsamlegri umræðu um viðkvæm viðfangsefni á borð við geðraskanir, er það einnig lykilatriði að uppræta fordóma í garð einstaklinga með ADHD og að auka skilning samfélagsins á þeim, bæði hvað varðar jákvæðu hliðarnar sem og neikvæðu. Það á aldrei að líðast í upplýstu, nútíma samfélagi að fordómar sem sprottnir eru út frá fáfræði eða misskilningi fái að bíta inn að beini eða mynda bresti í sjálfsmynd einstaklings með þessa geðröskun. Á sama tíma er einnig brýnt að við lítum ekki á fólk með geðröskunina sem óviðbjargandi fórnarlömb líffræðilegra orsaka. Forvarnir eru mögulegar með því að hlúa að jákvæðum umhverfisþáttum, og beinar mælingar á ADHD einkennum geta gert ADHD greiningar áreiðanlegri. Að sama skapi eiga geðlæknar að forðast eftir bestu getu að setja ADHD greindar einstaklinga í lyfjameðferð, nema í alvarlegri tilfellum og/eða þegar umhverfis-íhlutanir og hugræn-atferlismeðferð hafa brugðist (en atferlismeðferð ætti þó alltaf að fylgja lyfjameðferð). Á meðan það er á ábyrgð hvers einstaklings með slíka greiningu að lifa með geðröskuninni með eins jákvæðum hætti og mögulegt er og að vinna á þeim erfiðleikum sem henni fylgja, er það aðstandenda og samfélagsins í heild að veita þeim allan þann stuðning, skilning og byr í seglin sem völ er á.

Mikael Allan Mikaelsson, doktor í atferlisfræðilegum erfðavísindum
Skoðun

Sjá meira