Íslenski boltinn

Birna Berg spilar ekki í sumar - meinað að spila með landsliðum Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hand- og knattspyrnukonan Birna Berg Haraldsdóttir spilar ekki í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Birna Berg meiddist í viðureign Fram gegn Val fyrr í janúar og nú er ljóst að fremra krossband er slitið og liðþófi rifinn. Þetta kemur fram í viðtali Birnu við fréttasíðuna sem fotbolti.net.

Birna fór á kostum með ÍBV síðastliðið sumar og vakti sérstaklega mikla athygli í fyrstu umferðum Íslandsmótsins. Hún hélt nefnilega marki Eyjamanna hreinu í fyrstu fimm umferð mótsins en hún var í láni hjá ÍBV frá FH.

Tilkynnt að hún yrði ekki aftur valin í íslenska landsliðið í knattspyrnu

Birna Berg stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun síðastliðið haust að velja á milli þess að spila með A-landsliði kvenna í handknattleik á HM í Brasilíu eða með U19-ára landsliðinu í knattspyrnu.

Birna valdi handboltann fram yfir fótboltann í það skiptið og það virðist hafa verið dýrkeypt ákvörðun.

„Seinna í sömu viku var mér tilkynnt það af KSÍ að ég myndi ekki vera valin aftur í fótboltalandslið á meðan ég væri í handbolta. Fljótlega eftir það gerði ég mér grein fyrir því að mér þætti tilgangslaust að æfa fótbolta og stefna á að komast í fremstu raðir ef að ég kæmi ekki til greina í landsliðið því það hefur alltaf verið mitt markmið að komast í A landsliðið og vera ein af bestu markmönnum landsins," segir Birna í viðtalinu á fotbolti.net.

Þá segir Birna að í kjölfarið hafi áhugi hennar á fótboltanum dofnað og handboltinn orðið meira spennandi. Hún treystir sé þó ekki til þess að útiloka aðra hvora íþróttina keppnisárið 2013 þegar hún verður vonandi búin að jafna sig á meiðslunum.

Allt viðtalið við Birnu má sjá hér.

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í knattspyrnu, og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, A-landsliðsþjálfari kvenna, sögðust ekki vilja ræða málið þar til þeir hefðu haft tök á að lesa viðtalið.

Nánar verður fjallað um málið hér á Vísi síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×