Innlent

Ætlar að bjóða sig fram til biskups

Agnes M. Sigurðardóttir, sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli, ætlar að bjóða sig fram til biskups. Hún segir að margir hafi hvatt sig til þess að gefa kost á sér sem biskupsefni og hún sé til búin í það verkefni.

Í yfirlýsingu frá henni segir að hún leggi áherslu á að farið sé eftir reglum, að samræmis sé gætt í vinnubrögðum. Þá eigi það sama að ganga yfir alla og að fylgt sé vel eftir þeim málum sem Kirkjuþing samþykkir og stefnum Þjóðkirkjunnar.

„Ég legg einnig áherslu á að verkefni okkar sem þjónum Kirkjunni, hvort sem við erum leik eða lærð, óvígð eða vígð sé sameiginlegt verkefni, sem er að auka veg Kirkjunnar og boðskap hennar til heilla fyrir einstaklinga og samfélag.

Það er bæn mín að fleiri fái áhuga á starfi Kirkjunnar og boðskap hennar. Það er gert í samstarfi við söfnuðina þar sem starfið fer fram, þar sem fjölmargir leggja Kirkjunni sinni lið. Gefa af tíma sínum og eru trúir því sem þeim hefur verið treyst fyrir. Saman þurfa yfirstjórn Kirkjunnar og söfnuðirnir að vinna að málum til að góður árangur náist," segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér fyrir neðan.

Tilkynning vegna framboðs til biskups Íslands frá sr. Agnesi M. Sigurðardóttur.

Fyrir rúmum 30 árum vígðist ég til prestsþjónustu í kirkju Krists og hef þjónað henni óslitið síðan. Áður hafði ég tekið þátt í ýmsu safnaðarstarfi en allt frá barnsaldri hefur kirkjustarf verið áhugamál mitt. Ég vil veg Kirkjunnar sem mestan því hún flytur þann boðskap er mölur og ryð fá ekki grandað, boðskap sem kemur að gagni á vegferð mannsins í gegnum lífið. Vegferð sem mörkuð er öllum þeim aðstæðum sem koma upp, gleði og sorg, hversdögum og hátíðsdögum, málum sem þarf að vinna úr og takast á við. Í lífinu hef ég treyst á handleiðslu Guðs, treyst því að hann muni vel fyrir sjá.

Ég hef fengið hvatningu til að gefa kost á mér sem biskupsefni. Þau sem hafa hvatt mig telja að ég geti gagnast Kirkjunni vel á þeim vettvangi og geti leitt hana á farsælan hátt þjóðinni til heilla og henni sjálfri til sóma. Lýsi ég því hér með yfir að ég er reiðubúin til þessa verkefnis og býð mig hér með fram sem biskupsefni.

Kirkjan hefur eins og þjóðfélagið allt gengið í gegnum erfiðleikatíma. Það er sameiginlegt verkefni allra að takast á við það sem upp kemur, leggja gott til og hlusta á hvert annað. En við þurfum líka að heyra og meðtaka boðskapinn. Kirkjan er til vegna trúarinnar á Jesú Krist. Þess vegna bendir hún á þann lífsstíl og siðfræði sem Jesús boðaði. Lífsstíl sem byggir á djúpri vináttu við Guð og samvinnu karla og kvenna. Lífsstíl sem styðst ekki við völd yfir öðrum heldur við gagnkvæma vináttu og umhyggjusemi, sem leiðir til farsældar fyrir einstaklinga, kirkju og samfélag.

Starf prestsins er þjónustustarf. Presturinn er þess meðvitaður að hann hefur ekki þekkingu á öllum hlutum eða hæfileika á öllum sviðum. En hann er þess fullviss að hann stendur ekki einn í þjónustunni. Hann er borinn uppi af honum er allt vald hefur á himni og á jörðu, Guði sem sendir alltaf hjálp og ráð með fólki sem á vegi hans verður og með öðru samstarfsfólki í Kirkjunni, djáknum, sóknarnefndarfólki, starfsfólki og leikmönnum. Því kirkjustarfið er borið uppi af mörgum.

Biskup er prestur prestanna. Leiðtogi Kirkjunnar ásamt tveimur vígslubiskupum, sem eiga að vinna saman að því að standa vörð um hagsmuni Kirkjunnar og leiða hana jafnt á spegilsléttum firði sem ólgusjó. Leiða hana þannig að hennar lífgefandi boðskapur Guðs setji mark sitt á einstaklinga sem samfélag. Trúin getur hjálpað okkur að takast á við vanda vegna þess að hún kennir okkur að treysta Guði. Hún vísar okkur réttan veg og kennir okkur meðal annars að þakka.

Ég legg áherslu á það að farið sé eftir reglum, að samræmis sé gætt í vinnubrögðum og að það sama gangi yfir alla. Einnig að fylgt sé vel eftir þeim málum er Kirkjuþing samþykkir og stefnum Kirkjunnar.

Ég legg einnig áherslu á að verkefni okkar sem þjónum Kirkjunni, hvort sem við erum leik eða lærð, óvígð eða vígð sé sameiginlegt verkefni, sem er að auka veg Kirkjunnar og boðskap hennar til heilla fyrir einstaklinga og samfélag.

Það er bæn mín að fleiri fái áhuga á starfi Kirkjunnar og boðskap hennar. Það er gert í samstarfi við söfnuðina þar sem starfið fer fram, þar sem fjölmargir leggja Kirkjunni sinni lið. Gefa af tíma sínum og eru trúir því sem þeim hefur verið treyst fyrir. Saman þurfa yfirstjórn Kirkjunnar og söfnuðirnir að vinna að málum til að góður árangur náist.

Með bæn um blessun Guðs í lífi og starfi.

Agnes M. Sigurðardóttir

Bolungarvík, 29. janúar 2012

Um Agnesi:

Agnes hefur víðtæka reynslu af störfum innan Kirkjunnar. Hún hefur þjónað í borg, í sveit og í sjávarplássi, fyrst í Reykjavík en síðar á Hvanneyri í Borgarfirði og síðustu 17 árin í Bolungarvík. Hún hefur reynslu af stjórnun innan Kirkjunnar þar sem hún hefur verið prófastur frá árinu 1999. Þar að auki hefur hún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan Kirkjunnar.

Þann 20. september árið 1981 vígðist Agnes til prests og tók þá við embætti æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar. Því starfi gegndi hún í fimm ár þar sem hún kom meðal annars að gerð fræðsluefnis og tók virkan þátt í samstarfi við kirkjur á Norðurlöndunum á sviði æskulýðs- og fræðslumála. Á sama tíma sinnti hún einnig skyldum við Dómkirkjuna í Reykjavík. Árin 1986-1994 var Agnes sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Borgarfirði. Síðastliðin 17 ár hefur hún verið sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli og prófastur á Vestfjörðum frá árinu 1999. Auk þessa hefur Agnes gengt margvíslegum trúnaðarstörfum innan Kirkjunnar, meðal annars setið í stjórn Prestafélags Íslands, siðanefnd sama félags, nefnd um starfsþjálfun guðfræðinga, synodalnefnd um vörslu kirkjueigna og verið formaður stjórnar Friðarsetursins í Holti (sjálfseignarstofnun).

Agnes lauk cand.theol. prófi frá guðfræðideild HÍ árið 1981. Árið 1997 las hún prédikunarfræði við Háskólann í Uppsala undir handleiðslu Bo Larsson. Árið 2006 stundaði hún rannsókn á félagsmótun prestbarna og sótti námskeið í HÍ í tengslum við hana. Árin 1963-1976 stundaði Agnes píanónám og fræðigreinar því tengdar auk þess sem hún nam pípuorgelleik í einn vetur.

Agnes er fædd á Ísafirði þann 19. október árið 1954. Foreldar hennar eru sr. Sigurður Kristjánsson, sóknarprestur á Ísafirði og prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi, nú látinn og Margrét Hagalínsdóttir, ljósmóðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×