Innlent

Mörður ósammála Ögmundi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mörður Árnason er ósammála Ögmundi.
Mörður Árnason er ósammála Ögmundi.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera ósammála því að afturkalla ákæruna á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann segist vera hissa á því að ráðherra dómsmála vilji stöðva réttarhald í miðjum klíðum. Ögmundur lýsti því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að hann hygðist styðja þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að leggja málið gegn Geir Haarde niður.

Mörður spyr á vefsvæði sínu hvað ráðherrann eigi við með því að atkvæðagreiðslan um landsdóm á sínum tíma hafi tekið á sig „afskræmda flokkspólitíska mynd".

„Getur verið að Ögmundur Jónasson sé hér að taka undir þann ómerkilega áróður Sjálfstæðismanna að við í Samfylkingunni höfum með einhverjum hætti skipulagt atkvæðagreiðsluna þannig að flokksfélagar okkar „slyppu" en ekki hinir tveir?" spyr Mörður.

Mörður segir að Ögmundur hafi auðvitað fullan rétt til að taka afstöðu til tillögu Bjarna Benediktssonar, og gera opinbera syndajátningu í Mogganum. Annað mál sé hinsvegar að ata auri fólk sem hann eigi ekkert sökótt við - og starfi með í mikilvægustu ríkisstjórn síðustu áratuga á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×