Innlent

ESB vill ekki höfnun Íslands

Baldur Þórhallsson. Prófessorinn ávarpaði fund utanríkismálanefndar Evrópuþingsins í gær.
Baldur Þórhallsson. Prófessorinn ávarpaði fund utanríkismálanefndar Evrópuþingsins í gær.

Evrópuþingmenn á opnum fundi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, sem fjallaði um aðildarferli Íslands, lýstu yfir miklum skilningi á sérstöðu Íslands í gær, að sögn Baldurs Þórhallssonar prófessors sem ávarpaði fundinn. Fundurinn er liður í stefnumótun þingsins um aðildarviðræður Íslands.

„Það var rætt um að Ísland væri minnsta ríkið sem hefði sótt um aðild og um leið það ríkasta. Í þriðja lagi sé Ísland það land sem er mest aðlagað að ESB, sem nokkurn tíma hefur sótt um aðild. Ekkert umsóknarríki hafi verið eins vel undirbúið," segir Baldur.

Þingmenn hafi sagst vel skilja neikvæðni á Íslandi gagnvart aðild og vilji allt fyrir Ísland gera.

Um þessar mundir er ESB veikt fyrir vegna efnahagskrísunnar og Íslendingar hagnast á því, að mati prófessorsins. ESB hafi ekki efni á því að umsóknarríki hafni aðild.

„Menn hafa áhyggjur af því að ef Ísland hafnar inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það haft neikvæð og afdrifarík áhrif. Menn vilja ekki sjá norskt nei á Íslandi," segir Baldur og vísar til þess að Norðmenn hafa tvisvar hafnað aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Staða okkar í viðræðum er því betri núna en hún hefði verið fyrir nokkrum árum," segir hann. - kóþ







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×