Lífið

Sex vinir Sjonna syngja Eurovision-lagið

Fjórir úr Waterslide-hópnum snúa aftur á laugardaginn og flytja lag Sigurjóns Brink, Aftur heim.
Fjórir úr Waterslide-hópnum snúa aftur á laugardaginn og flytja lag Sigurjóns Brink, Aftur heim.

„Þessi nöfn eru staðfest og munu syngja lagið hans Sjonna," segir Jóhanna Jóhannsdóttir, dagskrárstjóri RÚV. Sex vinir Sjonna Brink munu flytja lagið hans Aftur heim sem lagasmiðurinn og söngvarinn samdi fyrir Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár.

Þetta eru þeir Hreimur Örn Heimisson, Gunnar Ólason, Benedikt Brynleifsson, Vignir Snær, Matthías Matthíasson og Pálmi Sigurhjartarson. Lagið verður flutt síðast á laugardaginn. Fjórir af þessum tónlistarmönnum sungu lagið Waterslide með Sigurjóni í síðustu söngvakeppni; þeir Vignir Snær, Hreimur Örn, Gunnar og Benedikt.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum varð Sigurjón Brink bráðkvaddur á heimili sínu á mánudag í síðustu viku. Hann samdi lagið en eiginkona hans, Þórunn Erna Clausen, á heiðurinn af textanum.

Fjögur lög eru þegar komin áfram í söngvakeppni Sjónvarpsins en á laugardaginn voru það Eldfjall og Nótt sem komust áfram. Áður höfðu Ástin mín eina og Ef ég hefði vængi þegar tryggt sér sæti í úrslitum keppninnar um hvaða lag verður framlag Íslands til Eurovision.

Meðal annarra flytjenda á laugardaginn má nefna Jógvan Hansen og Magna Ásgeirsson en hann syngur lag Hallgríms Óskarssonar, Ég trúi á betra líf. -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×