Innlent

Helmingur fráskilinna getur ekki rætt saman um börnin

Þegar dómstóll dæmir sameiginlegt forræði er það góð lausn fyrir minnihluta foreldra.
fréttablaðið/Valli
Þegar dómstóll dæmir sameiginlegt forræði er það góð lausn fyrir minnihluta foreldra. fréttablaðið/Valli
Helmingur fráskilinna foreldra sem dómstóll hefur dæmt sameiginlegt forræði getur ekki komið sér saman um neitt er varðar uppeldi barnanna. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var meðal danskra foreldra og Mai Heide Ottosen var í forsvari fyrir. Ottosen er sérfræðingur í skilnaðarrannsóknum hjá Félagsvísindastofnun Danmerkur og var stödd hér á landi í vikunni. Hún hélt fyrirlestur á málþingi á mánudaginn um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá.

„Árið 2007 varð það að lögum í Danmörku að þegar foreldrar deildu um forsjá barna, svo þeir þyrftu að fara fyrir dómara, væri það meginregla að dómarar dæmdu þeim sameiginlega forsjá – oft gegn vilja foreldranna. Þetta er auðvitað vandamál því þegar fólk fer fyrir dóm er það vegna þess að það getur ekki komið sér saman um neitt, og hvernig á þá að ganga að hafa sameiginlegt forræði?“ segir Ottosen. Hún fór því fyrir rannsókn á því hvernig þessi heimild dómara virkaði í raunveruleikanum. „Ég fékk upplýsingar um öll forræðismál ársins 2009. Þau voru um þrjú þúsund talsins. Svo hafði ég samband við um þúsund foreldra og spurði hvort þau vildu taka þátt í rannsókninni. Við tókum viðtal við þau stuttu eftir að dómsmálum lauk og síðan aftur ári seinna svo hægt væri að sjá áhrif til lengri tíma.“

Þrátt fyrir að meginreglan sé að dæma sameiginlega forsjá hafa dómarar heimild til að gera það ekki hafi þeir ástæður fyrir því, eins og þegar um misnotkun eða alvarleg vandamál er að ræða. „Niðurstöðurnar sýna að dómarar dæma sameiginlega forsjá í um helmingi tilvika.“

Foreldrar sem hafa sameiginlega forsjá eiga að geta komist að samkomulagi um öll mikilvæg málefni er varða barnið. „Í rannsókninni spurðum við foreldra hvort þeir héldu að þeir gætu komið sér saman um svona hluti. Tæpur helmingur svaraði neitandi, aðallega vegna þess að þeir höfðu lítil sem engin samskipti sín á milli eða vissu að ekki yrði samkomulag. Það var sama sagan þegar við spurðum hvort foreldrarnir gætu rætt hversdagslega hluti varðandi barnið, helmingurinn gat það ekki.“

Foreldrar sem höfðu sameiginlegt forræði gátu þó frekar unnið saman en foreldrar þar sem annað hafði forræði. Þar sem annað foreldrið hafði forræði var hlutfall þeirra sem ekki gátu unnið saman 75 til 80 prósent. Það stafaði aðallega af því að engin samskipti áttu sér stað. Litlar sem engar breytingar urðu á samskiptum foreldra eftir því sem frá leið.

Til stendur að dönsku lögin verði endurskoðuð og munu rannsakendur hvetja stjórnmálamenn til að endurskoða lögin vel. „Ég var mjög gagnrýnin á þetta fyrirkomulag í byrjun. Eftir þessa rannsókn verð ég að viðurkenna að sumir foreldrar geta unnið saman jafnvel þótt þeir fari fyrir dómstóla. Þetta getur verið góð lausn fyrir þá foreldra, en það er minnihlutahópur.“ thorunn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×