Innlent

Neðanjarðarhreyfingin Stóra systir krefst úrbóta

Neðanjarðarhreyfingin Stóra systir hefur afhent lögreglu lista yfir 56 nöfn, 117 símanúmer og 29 netföng manna sem fullyrt er að hafi falast eftir vændi í gegnum auglýsingar í Fréttablaðinu og vefjunum Einkamálum og Rauða torginu.

Þetta kom fram á fundi sem hreyfingin hélt með fjölmiðlafólki í gær. Nokkrir tugir dulbúinna kvenna kynntu þar aðgerðaáætlun sína og kröfur og skilaboðin til vændiskaupenda voru skýr: „Stóra systir fylgist með þér."

Á fundinum léku konurnar upptöku af símtali karls við konu sem hann taldi vera vændiskonu og lásu upp samtöl karla við konur sem þeir töldu að væru sumar hverjar mjög ungar að árum. Eitt þeirra var á milli stúlku sem kvaðst vera fimmtán ára og manns sem sagður var 48 ára deildarstjóri hjá opinberri stofnun.

Konurnar sögðu íslenska löggjöf á sviði vændis- og mansalsmála til fyrirmyndar en hún hefði ekki dugað til að útrýma meinsemdinni. Þær lásu upp lista yfir kröfur sínar, sem voru meðal annarra þær að vefsíðunni Einkamálum yrði lokað, að rannsókn mansals- og vændismála yrði undir sérhæfðu teymi sem fengist ekki við önnur sakamál og að stjórnvöld stæðu fyrir fræðsluherferð sem beindist að kaupendum vændis og kláms.

Hópi manna sem falast hafa eftir vændi var boðið á fundinn í Iðnó í gær undir því yfirskini að þar væri verið að opna módelskrifstofu. Ekki er vitað hvort einhver mætti.

- sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×