Innlent

Börn verða að læra að fara með peninga

Stór hluti Íslendinga er illa að sér í fjármálalæsi, að sögn sérfræðingsins Adele Atkinson. Fréttablaðið/Vilhelm
Stór hluti Íslendinga er illa að sér í fjármálalæsi, að sögn sérfræðingsins Adele Atkinson. Fréttablaðið/Vilhelm

„Fólk sem tekur lán til að greiða upp eldri lán er ekki með stjórn á fjármálum sínum. Þetta virðist algengt hér á landi,“ segir dr. Adele Atkinson, sérfræðingur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Hún leggur áherslu á að foreldrar fræði börn sín um notkun peninga. Ekki eigi að hræða börnin, svo sem með fjárhagsvanda foreldra. Börnin eigi að læra að hlutir kosti sitt og að stundum verði að leggja fyrir til að eiga fyrir þeim.

Atkinson hélt í gær erindi á ráðstefnu Stofnunar um fjármálalæsi um rannsókn sem hún var að ljúka um efnið og var gerð í tólf löndum. Þar kemur fram að Íslendingar vita yfirleitt ekki nema helminginn af því sem fólk á að vita um fjármál og að um fjörutíu prósent landsmanna taka lán til að greiða upp gamlar skuldir.

Atkinson segir í samtali við Fréttablaðið nokkra þætti skýra ástæðu þess að sumir eru betri í fjármálalæsi en aðrir. Menntun skýri það að hluta. Margt bendir þó til að þetta eigi ekki við um tekjuhópa; þvert á móti virðist fólk með öruggar og góðar tekjur fylgjast síður með fjármálum sínum en tekjulágir.

„Tekjulágir nota yfirleitt reiðufé fremur en greiðslukort. Ef þeir fá laun greidd inn á reikning í banka þá tekur fólkið hann út og flokkar eftir útgjaldaliðum. Þetta er einfalt og gott ráð enda fær fólk við það yfirsýn yfir fjármálin. Þeir sem eru með öruggar og traustar tekjur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að mánaðarlaunin dugi ekki fyrir framfærslu,“ segir Atkinson.
- jab


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.