Innlent

Launin margföld í Noregi

Íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar fara í miklum mæli til Noregs og Svíþjóðar til að vinna þar í stuttan tíma í senn. Fólk hefur þá ýmist óskað eftir launalausu leyfi frá vinnu hér á landi eða notar sumarleyfi og vaktafrí til þess að fara á hálfgerða vertíð í þessum nágrannalöndum. Launin eru miklu hærri.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir félagið fá að meðaltali tvær fyrirspurnir á viku um ferðir, aðallega til Noregs. „Þetta er ekki bara til að fá norskar krónur til að koma heim með heldur er fólk orðið þreytt á álaginu hér. Það er orðið þreytt á óvissunni af því að það eru alltaf að koma nýjar skipanir um breytingar." Fólk lifi meðal annars í óvissu vegna sameininga og breytinga deilda úr sólarhringsdeildum í dagdeildir.

Eyjólfur Þorkelsson, formaður Félags almennra lækna, tekur í sama streng. Ein birtingarmynd læknaskorts hér á landi sé að læknar upplifi óviðunandi álag í vinnunni. „Þegar fólk er við það að brenna út er gott að skipta um starfsvettvang og vinna undir öðru kerfi þar sem hlutirnir ganga öðruvísi og jafnvel hraðar og betur fyrir sig. Það er líka það sem fólk hefur sótt í," segir Eyjólfur.

„Það munar um launin, það eru hærri laun og styttri vinnutími, en það sem fólk er farið að átta sig á er að það er líka dýrt að lifa í Noregi," segir Elsa. Því sé dýrt að flytja með alla fjölskylduna þangað. „Þeir sem geta eru því að fara í þessar styttri ferðir og sætta sig við að vera bara með herbergi á hálfgerðri heimavist, vinna mjög mikið og koma heim með fín laun. Sérstaklega þegar þeim er breytt í íslenskar krónur." Um hálfgerða vertíð sé að ræða þar sem fólk vinni jafnvel tólf tíma á dag alla daga vikunnar.

Eyjólfur segir lækna sem hann hafi rætt við aðallega starfa á heilsugæslustöðvum. Þeir vilji ekki fara frá sjúklingum sínum hér á landi, en valið standi jafnvel á milli þess að vinna í tíu mánuði á Íslandi og vera í fríi í tvo mánuði, eða vinna tvo mánuði í Svíþjóð og vera í fríi í tíu mánuði. Launin komi eiginlega út á það sama. „Því miður átta ráðamenn sig ekki alveg á því í hvað stefnir," segir Eyjólfur. Elsa er sömu skoðunar. „Stjórnvöld ættu að hafa áhyggjur ef þau hafa metnað í að halda í fólk og halda hér uppi sæmilegu heilbrigðiskerfi."

- þeb
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.