Innlent

Menningarsalur og Mjölnir víkja fyrir hóteli við höfnina

Nýtt hótel opnar við Mýrargötu eftir rúmt ár.
Nýtt hótel opnar við Mýrargötu eftir rúmt ár.

„Það hefði verið gaman að geta klárað svona eins og eitt ár. En þetta er nú svona með ævintýrin, þau eru stutt. Svo koma ný ævintýri í staðinn," segir tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson.

Til stendur opna hótel við Mýrargötu 2-8 vorið 2012. Valgeir og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, eiginkona hans, hafa rekið menningarsalinn Nema Forum í húsnæðinu frá því í fyrra. Þá hefur íþróttafélagið Mjölnir haft aðsetur í húsnæðinu síðustu ár. Til stendur að byggja hæð ofan á húsið, en 111 herbergi verða á hótelinu ásamt líkamsræktaraðstöðu, bar og veitingaaðstöðu á jarðhæð. Hótelið verður hluti af keðju Icelandair.

„Það er mikill sjónarsviptir að þessum sal," segir Valgeir. „Hann var svo velkomin viðbót við tónlistarflóruna. Stærðin er ákjósanleg og fólki fannst svo þægilegt að vera í þessum sal og spila þar.“

Reglulegir menningarviðburðir hafa verið í húsinu frá því að Valgeir og Ásta opnuðu Nema Forum í húsinu í fyrra. Þau vissu þó að til stæði að innrétta hótel í húsinu þegar þau hófu þar rekstur. „En það var kannski ekki reiknað með að þetta gengi svona hratt fyrir sig," segir hann.

Spurður hvort hann leiti nú að nýju húsnæði undir menningarsal segist Valgeir ekki vera að því. „Það var hálfgerð tilviljun að við rákumst á þennan sal," segir hann. „Við vorum að leita okkur að skrifstofuhúsnæði. En það er meira en að segja það að takast svona á hendur."

Íþróttafélagið Mjölnir leitar nú að nýju húsnæði og að sögn formannsins Jóns Viðars Arnþórssonar er slatti af tómu húsnæði á svæðinu nálægt Mýrargötu. „Við erum á fullu að leita og vonumst eftir að fá svör mjög fljótlega," segir hann. Mjölnir er með leigusamning út ágúst og Jón segir að stefnan sé að finna húsnæði á sama svæði og íþróttafélagið er nú.

atlifannar@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.