Innlent

Páll Arason látinn: Ánafnaði reðursafninu liminn

Erla Hlynsdóttir skrifar
Sigurður Hjartarson safnstjóri á Hinu íslenska reðursafni
Sigurður Hjartarson safnstjóri á Hinu íslenska reðursafni
Páll Arason, sem hafði ánafnað Hinu íslenska reðursafni lim sinn eftir andlát sitt, er látinn. Tilkynnt er um andlát Páls í Fréttablaðinu í dag en hann lést þann 5. janúar.

Sigurður Hjartarson, safnstjóri reðursafnsins, hefur ekki fengið ákveðin svör frá aðstandendum Páls um hvort samningar verða virtir en hann gerir fastlega ráð fyrir því. „Ég vænti þess að þetta gangi upp," segir Sigurður.

Á Hinu íslenska reðursafni á Húsavík er nú að finna limi af öllum tegundum spendýra sem búa við Ísland, nema manninum.

„Ég á eistun úr einum og forhúðina úr einum en er lengi búinn að vera að bíða eftir fullkomnu eintaki. Þetta er það eina sem mig vantar," segir Sigurður.

Hann er heldur þolinmóður og ætlar sannarlega ekki að ýta á aðstandendur Páls vegna málsins. Fjórtán ár eru síðan Páll sjálfur gerði samning við Sigurðu um að limurinn færi á safnið þegar þar að kæmi.

Limur búrhvals á reðursafninuMynd: Phallus.is
Að því er kemur fram á vefsíðu reðursafnsins eru þar í íslensku deildinni nú 209 reðir og reðurhlutar af 46 dýrategundum, þar af 55 eintök af 17 hvalategundum.

Safnið hefur undir höndum fjögur vottuð gjafabréf vegna eintaka af tegundinni Homo Sapiens. Er limur Páls einn af þeim.

Í safninu er einnig þjóðfræðideild sem telur 23 eintök af 19 tegundum og erlenda deild 40 eintök af 27 tegundum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×