Innlent

Kostnaður við heilbrigðisþjónustu aukist um eitt og hálft prósent

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur aukist um eitt og hálft prósent á ári frá hruni, þrátt fyrir mikinn niðurskurð. Ráðast þarf í umfangsmiklar breytingar á heilbrigðisgeiranum til að auka hagkvæmni segir starfshópur velferðarráðuneytisins.

Starfshópur velferðarráðuneytisins um heilbrigðiskerfið kynnti niðurstöður sínar í dag enn hann fékk meðal annars sænskan hóp sérfræðinga frá einu fremsta ráðgjafafyrirtæki heims, Boston Consulting Group, með sér í lið við að greina skipulag og stöðu heilbrigðiskerfisins.

Í skýrslu hópsins kemur meðal annars fram að ástæða fyrir auknum kostnaði í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir niðurskurð eftir hrun sé aðallega vegna aukinna lyfjagreiðslna og hjúkrunarkostnaðar á meðan kostnaður við spítalaþjónustu hefur dregist saman.

Þá veltir hópurinn fyrir sér hvort að fjöldi heilbrigðisumdæma og sjúkrastofnana sé hugsanlega of mikill. Gerðar eru athugasemdir við fjölda sjúkrabíla sem nýtast misjafnlega og að nýting fæðingarþjónustu og skurðaðgerða á níu stöðum á landinu sé óhagkvæm.Þá sé mikið misræmi í framboði öldrunarþjónustu.

Einnig eru athugasemdir gerðar við að ekki sé til staðar samtengd sjúkraskrá fyrir allt landið og engin þjónustustýring sé til staðar sem veldur því að fólk fer frekar til sérfræðilækna en heimilislækna.

Í tillögum starfshópsins er lagt til að koma á samtengdri rafrænni sjúkraskrá fyrir allt landið. Hópurinn vill einnig endurskipuleggja greinina að verulegu leyti. Endurskoða notkun hjúkrunarrýma og sjúkrarýma og staðsetningar á þjónustu um allt land með tilliti til bættra samgangna. Endurskipuleggja heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og samræma framboð öldrunarþjónustu á landsvísu.

„Bættar samgöngur, breyting á fólksfjölda og annað hefur auðvitað áhrif á ákveðnum svæðum og við erum að aðlaga okkur að því og á sama tíma viljum við hafa mjög öfluga spítala þannig við þurfum ekki að sækja mikla þjónustu erlendis og allt kostar þetta. En ég held að við getum alveg náð þessu, það er ekki spurning um það heldur bara að standa saman um að gera þetta," segir Guðbjartur Hannesson, velferðaráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×