Innlent

Stjórnarformaður Kvikmyndaskólans hættur

Böðvar Bjarki Pétursson er hættur sem stjórnarformaður Kvikmyndaskóla Íslands. Nemendur og kennarar kröfðust þess að Böðvar stigi til hliðar til að sátt skapaðist um starf skólans.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði í byrjun mánaðarins styrktarsamning við skólann og var eitt af skilyrðunum fyrir samningnum að eigi síðar en fimmtánda þessa mánaðar gæfu fulltrúar nemenda og kennara, ásamt stjórn Kvikmyndaskólans út sameiginlega yfirlýsingu um að sátt ríki á milli aðila um starf og stjórnun skólans á núverandi skólaári.

Mikil óvissa hefur ríkt síðan samningurinn var gerður og lýstu nemendur skólans yfir vantrausti á stjórnina. Þá kröfðust þeir afsagnar Böðvars Bjarka.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði hann tapað trausti bæði nemenda og kennara. Nokkrir kennarar höfðu gefið út að þeir myndu hætta störfum ef Böðvar Bjarki héldi áfram og það gátu nemendur ekki sætt sig við.

Það er mat margra nemenda að að þrátt fyrir að Böðvar Bjarki hafi gert margt jákvætt fyrir skólann, sé hann nokkuð umdeildur og hafi stækkað skólann um of.

Nemendum var í dag tilkynnt að Böðvar Bjarki ætli að stíga til hliðar og binda þeir vonir við að skólahald geti hafist í næstu viku.

Ekki náðist í Böðvar Bjarka Pétursson við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×