Íslenski boltinn

Jóhann Helgi kippti sér sjálfum í axlarlið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það vakti óneitanlega athygli í leik Keflavíkur og Þórs um helgina þegar að sóknarmaðurinn Jóhann Helgi Hannesson, leikmaður Þórs, kippti sér sjálfum í axlarlið í miðjum leik.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir ofan en þar má sjá hvernig hann fær aðstoð Guðjóns Árna Antoníussonar, leikmanns Keflavíkur.

Sjálfur segir hann í viðtali við Vísi í dag að sér hafi ekki orðið mein af þessu. „Eftir að ég fór aftur í liðinn var þetta í lagi. Þetta var þó vissulega mjög vont á meðan þessu stóð," sagði Jóhann Helgi.

„Það var bara það mikið undir í þessum leik að ég fór ekkert að væla undan þessu - enda engin andskotans kona," sagði hann í léttum dúr og vísaði þar með í atvik á KR-vellinum í sumar þegar hann sendi leikmanni KR tóninn. Það atvik má einnig sjá í myndbandinu hér fyrir ofan.

Jóhann Helgi segir að hann hafi fyrst lent í vandræðum með öxlina í síðasta leik á undan - gegn Breiðabliki. „Þá klemmdist ég á milli tveggja leikmanna og fann að það gerðist eitthvað skrýtið. Það er talið að ég hafi dottið úr axlarlið en bara hrokkið beint aftur í hann. Það var því ekkert vandamál."

Þór féll úr úrvalsdeildinni um helgina en Jóhann Helgi ætlar að vera áfram. „Ég fer ekki frá liðinu þegar illa gengur," sagði hann en næst á dagskrá er leikur U-21 landsliðsins gegn Englandi á fimmtudagskvöldið.

„Það væri gaman að fá að spila fyrir Íslands hönd. Ég hef ekki prófað það áður," sagði Jóhann Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×