Íslenski boltinn

Sandra María: Eins og strákarnir væru að mæta Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Þór/KA mætir þýska stórliðinu Turbine Potsdam í Meistaradeild kvenna í fótbolta á morgun í fyrsta Evrópuleik norðanstúlkna frá upphafi og það er ekkert smálið komið í heimsókn.  Turbine Potsdam hefur komist alla leið í úrslitaleik keppninnar undanfarin tvö ár og vann Meistaradeildina 2010.

Þórsarar eru duglegir að hita upp fyrir leikinn og þeir birtu inn á heimasíðu sinni viðtal við leikmennina Rakel Hönnudóttur, Örnu Sif Ásgrímsdóttur, Láru Einarsdóttur og Söndru Maríu Jessen auk þess að tala við þjálfarann Hlyn Eiríksson.

„Það er löngu kominn fiðringur í magann og það er líka komið smá stress í bland þegar nær dregur. Ég er bara spennt," sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir í viðtalinu.

„Ég held að ég hafi ekki vitað hvað Meistaradeild Evrópu var þegar ég var yngri. Þetta kom ekki til greina þegar ég var tíu ára. Við ætlum bara að hafa gaman af þessu, reyna að fylla völlinn og búa til smá stemmningu," sagði Rakel Hönnudóttir.

„Ég er voðalítið búin að kynna mér þær en ég veit bara að það er álíka gott lið eins og strákarnir væru að mæta Barcelona. Þær eru mjög sterkar og það verður erfitt að mæta þeim," sagði Sandra María Jessen.

„Ég er orðin mjög spennt fyrir þessum leik enda held ég að það gerist bara einu sinni á lífsleiðinni að maður fái að spila svona leik á móti svona stóru liði," sagði Lára Einarsdóttir.

„Auðvitað er það snilld að fá að lenda á móti svona góðu liði því það fá ekki öll lið tækifæri á því. Við erum því heppin," bætti Sandra við en það má sjá öll þessi viðtöl með því að smella hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.