Innlent

Georg Guðni látinn

Georg Guðni Hauksson
Georg Guðni Hauksson Mynd/Hari

Georg Guðni Hauksson, listmálari, er látinn. Hann var bráðkvaddur laugardaginn 18. júní síðastliðinn.

Hann fannst látinn nærri sumarhúsi á Rangárvöllum á laugardag eftir að björgunarsveitir höfðu leitað að honum. Hann hafði ætlað sér að hlaupa til Hellu að hitta fjölskyldu sína, en varð bráðkvaddur á leiðinni.

Georg Guðni var fimmtugur að aldri og hafði fyrir löngu fest sig í sessi sem einn fremsta landslagsmálara landsins. Hann hefur haldið tugi myndlistarsýninga bæði hér á landi og erlendis, einn og með öðrum.

Hann fæddist í Reykjavík 1. janúar árið 1961. Foreldrar hans eru Karitas Jónsdóttir kjólameistari og Haukur Tómasson jarðfræðingur.

Georg Guðni stundaði nám við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árin 1980 til 1985 og síðar við Jan Van Eyck Akademie, í Maastricht í Hollandi frá 1985 til 1987.

Hann fékk Menningarverðlaun DV árið 1988 og var tilnefndur til Ars Fennica verðlaunanna árið 2000. Verk hans eru í eigu margra listasafna á Íslandi og erlendis.

Hann sat í stjórn sjóðs Richard Serra frá 1993 til 1995 og í safnráði Listasafns Íslands frá 1997 til 2000.

Georg Guðni lætur eftir sig eiginkonu og fimm börn á aldrinum 8 til 23 ára.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.