Innlent

Frjókornaofnæmi eykst hjá ungu fólki

Frjókornaofnæmi er að aukast hjá yngra fólki hér á landi. Um þriðjungur tvítugra ungmenna er með ofnæmi.

Frjókorn eru heldur seinni á ferðinni í ár en síðustu ár eftir kalt vor. Nú virðast grasfrjóin hins vegar vera farin að gera vart við sig. Finna margir fyrir þeim á hlýjum og þurrum dögum eins og í dag. Einkennin eru oft kláði í augum og nefi svo og nefrennsli. Björn Árdal, barna- og ofnæmislæknir, segir að síðustu tíu dagana hafi grasfrjóum tekið að fjölga. Þau fara svo vaxandi á næstunni og ná hámarki í kringum mánaðarmótin júlí ágúst. Björn segir ofnæmislyf og fyrirbyggjandi steraúða vera til fyrir þá sem eru illa haldnir.

Björn er einn þeirra lækna sem staðið hefur að umfangsmikilli rannsókn á ofnæmi hjá ungum Íslendingum. Hópi barna sem fæddist 1987 hefur verið fylgt reglulega eftir frá 18 mánaða aldri og ofnæmi hjá þeim mælt. Aðeins hefur ein önnur sambærileg rannsókn verið gerð í heiminum. Nýjar niðurstöður verða birtar í erlendum tímaritum á næstunni en þær þykja sláandi. Þar sést að mikil aukning hefur orðið á ofnæmi hjá yngra fólki miðað við það eldra. Hópur barnanna var síðast skoðaður þegar þau voru 21 árs en þá mældist um þriðjungur þeirra með frjókornaofnæmi. Börnin hafi þó verið mis næm. Þetta sé afskaplega há tala en svipaðar tölur hafa sést hjá nágrannaþjónum okkar.

Björn segir sambærilegar tölur ekki til fyrir eldri aldurshópa. Ljóst sé að munurinn á milli eldri aldurshópa og yngri sé mjög mikill, allt upp í helming.

Björn segir skýringar á þessu aukna ofnæmi ekki vera á reiðum höndum. Kenningar séu um að of mikið hreinlæti hafi sitt að segja. Það er að börn í dag alist upp í alltof hreinu umhverfi og fái ekki nægilegt áreiti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×