Erlent

Graði þingmaðurinn búinn að segja af sér

Weiner ásamt eiginkonu sinni en hún ber fyrsta barn þeirra undir belti.
Weiner ásamt eiginkonu sinni en hún ber fyrsta barn þeirra undir belti.
Anthony Weiner, þingmaður demókrata í Bandaríkjunum, hefur sagt af sér þingmennsku eftir að upp komst um kynlífshneyksli hans fyrir nokkrum vikum.

Weiner viðurkenndi í byrjun mánaðarins að hafa sent nokkrum konum myndir af sér fáklæddum. Í rúma viku laug hann að fjölmiðlum að einhver hefði hakkað sig inn á Twittersíðu sína og sent myndirnar á konurnar. Hann hélt svo blaðamannafund nokkru síðar og viðurkenndi að hafa sent myndirnar á að minnsta kosti sex konur, sumar þeirra eftir að hann giftist núverandi eiginkonu sinni.

Stuttu eftir blaðamannafundinn sögðu fjölmiðlar vestanhafs frá því að eiginkona hans væri ófrísk af þeirra fyrsta barni. Hjónaband þeirra hefur verið á milli tannanna á fólki og velta fjölmiðlar í Bandaríkjunum því fyrir sér hvort að hún muni fyrirgefa honum þessa ósæmilegu hegðun á netinu.

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, þrýsti á Weiner að segja af sér þingmennsku og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði að hann væri búinn að segja af sér væri hann í sporum þingmannsins.

Klámmyndaleikkonan Ginger Lee steig fram á dögunum og sagði að Weiner hafi beðið sig um að ljúga til um samskipti þeirra en þau skiptumst á um hundrað skilaboðum á netinu. Hún sagði við fjölmiðla fyrir stuttu að Weiner ætti að segja af sér vegna þess að hann hefur ítrekað logið eftir að málið varð opinbert.

Og það hefur hann nú gert. Hvað hann tekur sér nú fyrir hendur er óljóst en hann mun eflaust geta fundið sér eitthvað til dundurs.

Weiner átti sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og var rísandi stjarna innan flokksins. Margir bjuggust við því að hann myndi bjóða sig fram í næstu borgarstjórnarkosningum New York-borgar sem fara fram árið 2013.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×