Innlent

Símhlerunum beitt í meintu samráði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Byko. Myndin er úr safni.
Byko. Myndin er úr safni.
Símhlerunum var beitt í tengslum við rannsókn á samkeppnisbrotum Byko og Húsasmiðjunnar en þannig tókst lögreglu að afla mikilvægra sönnunargagna um meint samkeppnisbrot.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og Samkeppniseftirlitið framkvæmdu húsleitir hjá Byko og Húsasmiðjunni hinn 8. mars síðastliðinn í tengslum við rannsókn á samkeppnislagabrotum, en fyrirtækin tvö og verslunin Úlfurinn eru grunuð um ólögmætt verðsamráð við innflutning og sölu á timbri og annarri grófvöru. Fyrirtækin eru öll þrjú í samkeppni á þessu sviði en hafa átt í einhverjum mæli viðskipti innbyrðis.

Alls voru nítján manns handteknir vegna málsins og yfirheyrðir en enginn þeirra var áfarm í haldi eftir yfirheyrslur. Rannsókn málsins er nú í fullum í gangi hjá efnahagsbrotadeild.

Samkvæmt heimildum fréttastofu studdust efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og Samkeppniseftirlitið við símhleranir við rannsókn málsins og voru þær í umsjá tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 var mikilvægra gagna aflað með símhlerunum sem munu nýtast við rannsókn málsins.

Stöð 2 hefur heimildir fyrir því að símar bæði Sigurðar Arnar Sigurðssonar, forstjóra Húsasmiðjunnar og Sigurðar E. Ragnarssonar, forstjóra Byko, hafi verið hleraðir í tengslum við rannsóknina. Hleranirnar voru þó mun víðtækari og náðu einnig til millistjórnenda beggja fyrirtækja en nöfn annarra stjórnenda sem hleraðir voru hafa þó ekki fengist upp gefin.

Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, vildi ekkert tjá sig um málið við fréttastofu í dag. Þá náðist ekki í Sigurð E. Ragnarsson, forstjóra Byko.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×