Viðskipti innlent

Glitnir í mál við Guðbjörgu og vill rifta sölu bréfa

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn Guðbjörgu Matthíasdóttur útgerðarkonu í Vestmannaeyjum og krefst riftunar á hlutabréfakaupum sem gerð voru þremur dögum fyrir þjóðnýtingu Glitnis.

Í september 2007 keypti Glitnir nærri 40 prósenta hlut í Tryggingamiðstöðinni fyrir um 20 milljarða króna af Guðbjörgu Matthíasdóttir og fleiri fjárfestum og seldi bréfin síðan áfram til annarra. Hluti af kaupverðinu var greiddur með hlutabréfum í Glitni, en samtímis var gerður samningur um sölurétt um bréfanna sem varð virkur ári eftir að viðskiptin áttu sér stað.

Guðbjörg Matthíasdóttir seldi síðan 1,71 prósents hlut sinn í Glitni fyrir þrjá og hálfan milljarð króna föstudaginn 26. september 2008, eða síðasta virka dag fyrir þjóðnýtingu bankans sem kynnt var í Seðlabankanum mánudaginn 29. september. Ekkert varð sem kunnugt er úr þeim áformum en bréfin í Glitni höfðu hríðlækkað í verði. Enginn annar af tuttugu stærstu hluthöfum bankans seldi hlut sinn í vikunni fyrir þjóðnýtinguna.

Láta reyna á riftunarreglur

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur slitastjórn Glitnis banka ákveðið að höfða mál gegn Guðbjörgu vegna þessara viðskipta og krefst riftunar á sölu hlutabréfanna að hluta en bankinn tók ákvörðun um málshöfðun eftir að Guðbjörg sinnti ekki áskorunum um greiðslu. Ekki er grunur um saknæma háttsemi og er Glitnir að láta reyna á riftunarreglur í gjaldþrotalögum, en krefjast má riftunar á greiðslu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag í ákveðnum tilvikum. Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti telst frestdagur sá dagur sem þrotamaður óskaði fyrst eftir heimild til greiðslustöðvunar eða heimild til að leita nauðasamninga.


Glitnir telur að Guðbjörg hafi með sölu hlutabréfanna fengið réttindi umfram aðra og kröfuhöfum bankans hafi þannig verið mismunað. Krefst Glitnir leiðréttingar á kaupverði og vill mismun á verðinu sem Guðbjörg seldi hlutabréfin á og gengi bréfanna í Kauphöll daginn sem viðskiptin áttu sér stað, hinn 26. september 2008. Samkvæmt heimildum fréttastofu hleypur fjárhæðin á milljörðum króna. Guðbjörg fékk hlutinn í Glitni á genginu 28,45 þegar bankinn keypti tæplega 40 prósenta hlut hennar og nokkurra annarra í TM í september 2007 en aldrei hefur verið gefið upp á hvaða gengi bankinn keypti bréfin af henni þegar hún nýtti sér söluréttinn hinn 26. september 2008.

Stefnan var birt nú vikunni og verður hún þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, vildi ekkert tjá sig um málið í samtali við fréttastofu. Þá vildi Sigurbjörn Magnússon, lögmaður Guðbjargar, ekki tjá sig heldur þegar eftir því var leitað. thorbjorn@stod2.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ARION
2,03
5
20.272
HEIMA
0,91
3
35.792
SKEL
0
2
219
SIMINN
0
1
503
MARL
0
2
61.880

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-0,58
7
22.145
ORIGO
-0,22
1
784
SJOVA
-0,07
1
1.420
SKEL
0
2
219
SIMINN
0
1
503
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.