Enski boltinn

Carragher beið fyrir utan klefa United til þess að biðja Nani afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani var borinn útaf eftir tæklinguna frá Jamie Carragher.
Nani var borinn útaf eftir tæklinguna frá Jamie Carragher. Mynd/AP
Daniel Taylor, blaðamaður Guardian, skrifaði um það á twitter-síðu sinni núna rétt áðan að Liverpool-maðurinn Jamie Carragher hafi beðið fyrir utan búningsklefa Manchester United til að biðja Portúgalann Nani afsökunar á tæklingu sinni í lok fyrri hálfleiks.

Liverpool vann 3-1 sigur á erkifjendum sínum í Manchester United á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag en Nani spilaði aðeins fyrri hálfleikinn eftir þessu hörðu tæklingu frá Carragher. Ekki er vitað hversu alvarlega meiðsli Nani eru en hann var augljóslega sárþjáður og með takkaför á sköflungum.

Það þurfti að bera Nani útaf vellinum á börum og hann kom ekki meira við sögu í leiknum. Carragher fékk gult spjald fyrir brotið en litlu munaði að leikurinn leystist upp í slagsmál í kjölfarið.



Hér til hliðar má sjá hversu ljótt sárið var á fæti Nani en hann stökk meðal annars á fætur til þess að sýna Phil Dowd dómara leiksins svöðusárið á leggnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×