Viðskipti erlent

Nærmynd: Glaumgosinn Robert Tchenguiz

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Robert Tchenguiz ásamt eiginkonu sinni Heather Bird.
Robert Tchenguiz ásamt eiginkonu sinni Heather Bird.

Bresk-íranski kaupsýslumaðurinn Robert Tchenguiz, sem handtekinn var í Lundúnum í morgun í tengslum við rannsókn Serious Fraud Office á Kaupþingi, sat í stjórn Exista og var stærsti einstaki lántakandi Kaupþings banka fyrir hrunið.



Tchenguiz hafði afar greiðan aðgang að lánsfé hjá Kaupþingi og var jafnframt sá einstaklingur sem skuldaði íslensku bönkunum mest samanlagt í lok ársins 2007, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Tchenguiz fékk m.a 643 milljóna punda yfirdráttarlán hjá Kaupþingi, en það er jafnvirði 120 milljarða króna.



Lán Kaupþings banka til Tchenguiz voru í veitt að hluta í gegnum flókið net aflands- og dótturfélaga með óbeinum veðum í félögum í breskri smásöluverslun. Mörg þessara félaga voru seld eftir hrun og önnur hröpuðu í verði með tilheyrandi tapi fyrir þrotabú Kaupþings banka.



Stærsta yfirdráttarlán Íslandssögunnar


Skilanefnd Kaupþings höfðaði mál í febrúar 2009 gegn Oscatello Investments Ltd., félagi í eigu Tchenguiz, vegna 643 milljóna punda yfirdráttarláns, en það er jafnvirði 120 milljarða króna. Félagið var skráð á Jómfrúreyjum og virtist hafa mjög greiðan aðgang að lánsfé hjá Kaupþingi. Í raun var um að ræða lánalínu sem dregið var á, svokallað „overdraft facility." Lánið var að mestu tryggt með veðum í hlutabréfum og reikningum hlutafélaga Tchenguiz.



Þegar fréttir bárust af málshöfðun Kaupþings gegn félagi Tchenguiz var greint frá því að lánið til Oscatello Investments hefði verið samsett af öllum lánum sem tengdust Tchenguiz í desember 2007, þegar gengið var frá samningi við félag hans. Lánið hafi verið sett saman til að fá „betri yfirsýn" yfir lánveitingar til Tchenguiz. Og hann hafi gert kröfu um að lánið yrði veitt til aflandsfélagsins, þ.e Oscatello. Undirliggjandi veð fyrir lánunum voru ýmsar verslana- og kráarkeðjur, eins og hlutabréf í Sainsbury's, Michell and Butler, sem rekur kráakeðjur á Bretlandseyjum og GreenKing.



Héldu áfram að lána Tchenguiz eftir að lausafjárkreppan skall á


Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að félagið Razino Properties hafi vorið 2007 fengið lán sem námu um 613 milljónum evra (þá tæpir 54 milljarðar króna) hjá Kaupþingi. Fram til desember sama ár var þetta langstærsta útlánastaðan til félaga Tchenguiz. Síðla árs 2007 hafi útlán vegna afleiðusamninga ýmissa fyrirtækja Tchenguiz verið sameinuð undir regnhlífarsamningi í Oscatello Investments Ltd, eins og greint var frá framar. En fram kemur í skýrslunni að útlánastaða Oscatello hafi vaxið nokkuð jafnt og þétt fram að falli bankans og í júlí 2008 hafi bæst við tæplega 220 milljóna evra útlán til Violet Capital Group Ltd, sem einnig var í eigu Tchenguiz, í gegnum framvirkan samning. Snemma árs 2008 fóru heildarútlán móðurfélags Kaupþings til Tchenguiz-hópsins, þ.e Roberts og bróður hans Vincent og félaga þeirra, yfir 25 prósent af eiginfjárgrunni Kaupþings-samstæðunnar en þrátt fyrir það var haldið áfram að lána til Oscatello og raunar annarra fyrirtækja Tchenguiz. Þá var stór hluti lánveitinganna til Oscatello til þess að svara veðköllum sem erlendir bankar gerðu við Tchenguiz vegna afleiðusamninga.



Fram kemur í skýrslunni að á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings í janúar 2008 hafi Oscatello verið veitt yfirdráttarheimild til þess að svara mögulegum veðköllum fjármálafyrirtækisins Dawnay Day, bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley og Kaupthing Singer & Friedlander en sú heimild var hækkuð enn frekar á tveimur næstu fundum nefndarinnar, fyrst í mars og aftur í maí. Ávallt voru ástæður lánveitinganna sagðar vera til að svara veðköllum áðurnefndra banka.



Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að í maí 2008 hafi þessi yfirdráttarheimild verið komin í 600 milljónir punda en kjörin voru 2,75% yfir libor-vöxtum. Kaupþing hafi því verið tilbúið að lána Oscatello á sama tíma og aðrir bankar voru að reyna að bæta tryggingastöðu sína gagnvart félögum Tchenguiz. Þá gerðist þetta á tíma þar sem lausafjárvandræði íslensku bankanna voru að verða mjög mikil.



Rannsóknarnefnd Alþingis telur að útlán Kaupþings til Robert Tchenguiz og félaga hans hafi verið umfram það sem eðlilegt gat talist á viðskiptalegum forsendum. Reglum um stórar áhættuskuldbindingar hafi ekki verið fylgt. Af þeim gögnum sem nefndin aflaði frá Kaupþingi hafi verið erfitt að koma auga á að lánveitingar af þeirri stærðargráðu, sem félög Tchenguiz fengu á tíma lausafjárþrenginga, hafi verið gerðar með hagsmuni bankans í huga.



Eignastrúktúr Tchenguiz var þannig upp settur að félög voru hliðsett öðrum félögum sem áttu dótturfélög sem áttu síðan eignir, t.d bresku verslanakeðjuna Somerfield. Verslanakeðjan Somerfield var seld sumarið 2008 fyrir 1,57 milljarða punda til verslanafyrirtækisins Cooperative Group (Co-op). Peningarnir vegna sölunnar skiluðu sér ekki til bankans lengi framan af vegna skilyrða sem bresk samkeppnisyfirvöld settu, en það var í október 2008, eftir hrun Kaupþings sem þau samþykktu samruna móðurfélags Somerfield og Co-op gegn ákveðnum skilyrðum.



Í ágúst 2009 fékk skilanefnd Kaupþings því framgengt hjá stjórnvöldum á Tortóla á Jómfrúreyum að frystir yrðu jafnvirði nokkurra tugi milljarða króna í eigu Tchenguiz á meðan á málferlum skilanefndar Kaupþings stóð, en um var að ræða söluandvirði Somerfield-keðjunnar.



Lét pabba gangast í ábyrgð og er hrifinn af viský


Kaupþing fjármagnaði mörg stærstu fyrirtækjakaup Tchenguiz á liðnum árum en grunnur að auðlegð Tchenguiz liggur í fasteignabransanum. Með því að fá föður sinn til að gangast í ábyrgð fyrir litlu láni snemma á ferlinum tókst honum að leggja grunn að fasteignaveldi sem gerði hann og Vincent, bróður hans, um tíma að einhverjum ríkustu mönnum Bretlands. Bræðurnir hafa í gegnum tíðina verið sagðir miklir glaumgosar í breskum fjölmiðlum. Áhugamál Robert Tchenguiz eru sögð eðalviský, hraðskreiðir bílar og ný viðskiptatækifæri. Hann var áberandi í samkvæmislífinu í Lundúnum og átti vingott við áberandi konur. Tchenguiz átti m.a í ástarsambandi við fyrirsætuna Caprice Bourret, en hún var áður í sambandi við knattspyrnukappann Tony Adams á sínum tíma. Dagar Tchenguiz sem áberandi piparsveins í samkvæmislífinu í Lundúnum eru þó að baki því hann er kvæntur í dag.



Nafn Róberts Tchenguiz varð nokkuð áberandi í fjölmiðlum á Íslandi þegar hann keppti við Baug um það snemma vors 2005 að kaupa bresku verslanakeðjuna Somerfield. Kaupþing leiddi keppinautana saman ásamt fleiri fjárfestum en rekstur sakamáls á hendur stjórnendum og eigendum Baugs varð til þess að fyrirtækið þurfti að draga sig í hlé, en félag í eigu Tchenguiz og Kaupþings keypti Somerfield með fulltingi annarra fjárfesta. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Tengist rannsókn SFO

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að handtökurnar sem gerðar voru í Bretlandi í morgun og í Reykjavík tengist rannsókn sem efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar hefur verið með í gangi síðan 2009.

Tchenguiz-bræður og Sigurður Einarsson handteknir í Lundúnum

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Robert Tchenguiz, sem var stærsti viðskiptavinur bankans, voru handteknir í Lundúnum í morgun í sameiginlegri aðgerð Serious Fraud Office í Bretlandi og embætti sérstaks saksóknara á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×