Innlent

Sigruðu í alþjóðlegri kórakeppni í Rússlandi

Flensborgarkórinn vann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri kórakeppni í Sankti Pétursborg í síðustu viku.
Flensborgarkórinn vann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri kórakeppni í Sankti Pétursborg í síðustu viku.
Flensborgarkórinn, kór útskrifaðra nemenda frá Flensborgarskólanum, keppti í alþjóðlegri kórakeppni í Sankti Pétursborg í Rússlandi sem lauk fyrir helgi. Kórnum var boðin þátttaka og keppti í flokki blandaðra kóra sem var stærsti flokkurinn og vann fyrstu verðlaun í þeim flokki. Magnús Þorkelsson, skólastjóri Flensborgarskólans, segir í tilkynningu mikla viðurkenningu fólgna í þessum árangri.

Flensborgarkórinn var stofnaður haustið 2008 og telur nú 30 söngvara á aldrinum 20-30 ára. Kórinn er sjálfstæð eining leidd útfrá Kór Flensborgarskólans í Hafnarfirði sem er einn stærsti ungmennakór landsins og hefur starfað í fjölda ára, að sögn Magnúsar. Hrafnhildur Blomsterberg er stjórnandi beggja kóranna.

Keppnin, The VI International Competition of Choral Arts -The Singing World-, er alþjóðleg keppni og var 37 kórum boðin þátttaka að þessu sinni. Að keppninni stendur listasamsteypan INTER ASPECT í samvinnu við menningarmálanefnd Sankti Pétursborgar og elsta kór Rússlands „The State Academic Capella".

„Keppnin var mjög sterk og dæmd af sjö manna alþjóðlegri dómnefnd. Það er því mikil viðurkenning fólgin í þessum árangri. Ásamt því að taka þátt í keppninni hélt kórinn nokkra mjög vel sótta tónleika í glæsilegum tónleikasölum Sankti Pétursborgar sem skipulagðir og auglýstir voru af stjórnendum keppninnar," segir Magnús.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×