Innlent

Þurfa að greiða milljónir í miskabætur vegna skipunar dómara

Árni Mathiesen og íslenska ríkið var dæmt til þess að greiða Guðmundi Kristjánssyni lögmanni óskipt þrjár og hálfa milljón í miskabætur fyrir að skipa Þorstein Davíðsson sem héraðsdómara árið 2007. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Guðmundur sótti um starfið en fékk ekki. Hann stefndi því ríkinu og Árna sem var sitjandi dómsmálaráðherra þegar hann skipaði Þorstein í starfið. Skipunin þótti verulega umdeild á sínum tíma en Þorsteinn er sonur Davíðs Oddssonar.

Þá fylgdi Árni ekki mati dómnefndar sem var faglega skipuð en hún komst að þeirri niðurstöðu að Þorsteinn væri ekki heppilegastur í starfið. Þorsteinn var flokkaður tveimur hæfnisflokkum neðar en Guðmundur.

Svo segir í dómi héraðsdóms: „Í ljósi þess að stefndi, Árni, taldi umsögn dómnefndarinnar „ógegnsæja, lítt rökstudda og að innra ósamræmis gætti við mat á reynslu umsækjenda af ýmsum störfum" þá bar honum að rannsaka málið frekar. Það gerði hann ekki. Þótt stutt hafi verið til áramóta og jólahátíðin framundan þá réttlætir það ekki að stefndi, Árni, lét hjá líða að fara að stjórnsýslulögum.

Með vísan til þess sem að framan greinir var verulegur annmarki á ákvörðun stefnda, Árna, er hann skipaði í dómaraembættið og að uppfyllt eru skilyrði almennu skaðabótareglunnar um að ákvörðunin hafi verið tekin með saknæmum og ólögmætum hætti."

Guðmundur vildi einnig að skaðabótaskylda ríkisins yrði viðurkennd en fékk ekki. Þá skal ríkið og Árni greiða milljón í málskostnað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×