Innlent

Frestun á gagnaveri „helvítis“ áfall fyrir byggingageirann

Gagnaver í Reykjanesbæ.
Gagnaver í Reykjanesbæ.

„Þetta er helvítis áfall fyrir byggingageirann," segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, en allar framkvæmdir hafa verið stöðvaðar við gagnver Verner Holdings. Stjórnarformaður félagsins, Vilhjálmur Þorsteinsson, segir ástæðuna fyrir töfunum vera bið eftir því að Alþingi afgreiði fjárfestingasamning sem þar liggur fyrir.

Það var í gær sem iðnaðarmenn höfðu samband við Kristján og tilkynntu honum að þeir hefðu fengið skilaboð um að hætta framkvæmdum við gagnaverið. Með fylgdi að framkvæmdir væru settar á bið um óákveðin tíma. Tugir starfa komu beint að framkvæmdunum og því gríðarlega mikilvægt verkefni að mati Kristjáns fyrir iðnaðarmenn á Reykjanesinu.

Það kom hinsvegar babb í bátinn í desember þegar fjárfestingasamningurinn var fyrst lagður fyrir þing. Þá kom í ljós að Björgólfur Thor Björgólfsson átti 40 prósent í félaginu. Þingmaður Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, setti strax spurningar um það hvort það væri réttlætanlegt að hann fengi þetta verkefni á meðan Icesave væri í uppnámi.

Iðnaðarráðherrann svaraði fullum hálsi og sagði í desember um málið: „Mér þykir ógeðfellt hvernig þingmenn hér eru að reyna að gera þetta mál tortryggilegt," sagði Katrín Júlíusdóttir við það tækifæri.

Þegar Vísir hafði samband við Vilhjálm, stjórnarformann félagsins, fengust þau svör að töfin útskýrðist eingöngu vegna frumvarpsins sem liggur enn fyrir á þingi. Það er komið í gegnum fyrstu umræðu og bíður frekari afgreiðslu.

Ekki náðist í iðnaðarráðherra vegna málsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×