Innlent

20 mótmælendur fóru að heimilum Guðlaugs og Steinunnar

Mótmælendur fór meðal annars að heimili Guðlaugs Þórs.
Mótmælendur fór meðal annars að heimili Guðlaugs Þórs.
Um 20 mótmælendur tóku sér stöðu fyrir framan heimili Steinunnar Valdísar Óskardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um matarleytið í gærkvöldi.

Hópurinn hefur hingað til mótmælt fyrir utan heimili Steinunnar og hafa þeir meðal annars afhent henni áskorun um að segja af sér vegna styrkja sem hún þáði árið 2006.

Þetta er hinsvegar í fyrsta skiptið sem mótmælendur fara að heimili Guðlaugs Þórs.

Mótmælendur reyndu að afhenda honum álíka áskorun og Steinunni var afhent á dögunum. Hann reyndist hinsvegar ekki vera heima.

Mótmælin hafa staðið yfir í um tvær vikur. Þau þykja afar umdeild en meðal annars hótaði lögreglan að handtaka mótmælendur fyrir utan heimili Steinunnar Valdísar á dögunum.

Þá fóru þeir einnig að heimili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, rétt áður en hún tilkynnti að hún myndi víkja tímabundið af þingi auk þess sem hún sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þegar haft var samband við lögregluna fengust þau svör að engin afskipti hafi verið höfð af mótmælendunum. Svo virðist sem mótmælin hafi farið friðsamlega fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×