Innlent

Ásbjörn játar brot á lögum - Bjarni segir brotið ekki hafa áhrif

Ásbjörn óttarsson
Ásbjörn óttarsson

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, viðurkenndi í Kastljósi Sjónvarps í gær að hafa brotið lög þegar hann greiddi sér og konu sinni tuttugu milljónir króna í arð árið 2007, fyrir árið 2006, þegar eigið fé fyrirtækisins var neikvætt.

„Samkvæmt lögum þá má þetta ekki. Mér var ekki kunnugt um það þegar það var gert og um leið og mér var kunnugt um það endurgreiddi ég féð,“ sagði hann.

Ásbjörn segist hafa komist að því að þetta var lögbrot, þegar blaðamaður Fréttablaðsins spurði hann út í þetta í síðustu viku. Síðan hafi hann endurgreitt peningana. Lögbrotið hafi ekki verið með vitund eða vilja gert. „Ég er nú bara einu sinni mannlegur og hef nú ekki bókhaldsþekkingu,“ sagði hann á RÚV í gær. Þingmaðurinn bauðst til að mæta í beina útsendingu með lygamæli.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildar, hafði ekki séð viðtalið við Ásbjörn í gærkvöldi og vildi því ekki leggja mat á hvort brotin væru refsiverð. „En ef svo er þá þurfum við að bregðast við því,“ segir hann.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir Ásbjörn hafa gert mjög vel grein fyrir málinu. „Hann hefur játað á sig mistök og gert það sem hann getur til að bæta fyrir það sem var í ólagi. Þar með finnst mér að þetta eigi ekki að hafa áhrif á hans stöðu sem þingmanns eða vegna þeirra trúnaðarstarfa sem hann gegnir,“ segir Bjarni.

- kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×