Lífið

Guðmundur hannar fyrir GK

Guðmundur Jörundsson fatahönnunarnemi mun hanna nýja herrafatalínu fyrir verslunina GK Reykjavík.  fréttablaðið/valli
Guðmundur Jörundsson fatahönnunarnemi mun hanna nýja herrafatalínu fyrir verslunina GK Reykjavík. fréttablaðið/valli
Guðmundur Jörundsson mun hanna klassísk hversdagsföt fyrir verslunina GK. Hann verður þó áfram yfirhönnuður hjá Kormáki & Skildi.

Guðmundur Jörundsson fatahönnuður hefur verið ráðinn til að hanna nýja herrafatalínu fyrir tískuverslunina GK Reykjavík. Guðmundur lætur þó ekki af störfum sem yfirhönnuður Herrafataverslunar Kormáks & Skjaldar heldur mun hann sinna báðum verkefnum.

„Ég er á lokaári mínu í fatahönnun í LHÍ núna og verkefnið fyrir GK Reykjavík fer í raun ekki af stað fyrr en ég er búinn í skólanum í vor. Línan fyrir GK verður allt öðruvísi en sú sem ég hannaði fyrir Kormák & Skjöld. Fötin verða klassískari hversdagsföt en ég mun samt reyna að setja mitt mark á þau," útskýrir Guðmundur, en þess má geta að Ása Ninna Pétursdóttir og Guðmundur Hallgrímsson keyptu nýverið verslunina GK Reykjavík.

Fyrsta fatalína Guðmundar fyrir Kormák & Skjöld var frumsýnd í síðustu viku. Mörg þekkt andlit voru fengin til að sýna flíkurnar og ber þar helst að nefna menn á borð við alþingismanninn Guðmund Steingrímsson, hárgreiðslumanninn Karl Berndsen og plötusnúðinn Jón Atla Helgason.

Það hlýtur að teljast vel af sér vikið að vera ekki útskrifaður úr fatahönnun en samt kominn með tvo samninga, en Guðmundur gerir lítið úr því. „Ætli þetta sé ekki fyrst og fremst heppni. Líka það að ég hef einbeitt mér að herrafatatísku sem aðrir hafa ekki sinnt neitt sérstaklega hingað til," segir Guðmundur sem hefur í nægu að snúast þessa dagana.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×