Skoðun

Steingrímur Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir: Tökum næsta skref

Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir skrifar

Í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn hafa Íslendingar tækifæri til að stíga næsta skref í uppgjöri sínu við þá stjórnmálastefnu og flokka sem leiddu af sér hrunið. Þessar kosningar eru ekki síður mikilvægar en þær sem fram fóru fyrir rúmu ári, þá í kjölfar efnahagshrunsins og uppreisnar almennings gegn sitjandi valdhöfum. Sú krafa sem almenningur setti fram í þeim kosningum um róttækar breytingar og heiðarleg stjórnmál þarf líka að heyrast á laugardaginn.

Á því rúma ári sem við Vinstri græn höfum setið í ríkisstjórn hefur stærsta og erfiðasta verkefnið verið að taka til eftir óstjórn Sjálfstæðisflokksins og leggja grunn að nýju samfélagi sem hefur háleitari markmið en að „græða á daginn og grilla á kvöldin". Þetta verkefni bíður einnig nýrra sveitarstjórna um allt land að loknum kosningum. Þar þarf að skapa traust og leggja grunn að nýju samfélagi ekki síður en á landsvísu.

Við Vinstri græn leggjum nú sem fyrr áherslu á heiðarlega og málefnalega kosningabaráttu. Gagnrýni okkar á ríkjandi stjórnmálaviðhorf góðærisáranna undirstrikar að hægt er að treysta pólitískri sýn flokksins og að hún geti reynst okkur verðmæt í þeim erfiðu verkefnum sem fram undan eru. Fyrir síðustu alþingiskosningar sögðum við kjósendum réttilega að bæði þyrfti niðurskurð og tekjuöflun til að takast á við vanda landsins. Aðrir flokkar reyndu að spinna sig út úr vandanum en í alþingiskosningunum 2009 virkaði spuninn ekki lengur. Fólk vildi heiðarleg stjórnmál.

Ekki má heldur gleymast að mikilvægar ákvarðanir sem hafa víðtæk áhrif eru teknar í sveitarstjórnum. Nærtæk dæmi eru ákvarðanir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og borgarstjórnar Reykjavíkur á kjörtímabilinu sem leiddu til þess að þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins, HS Orka, hefur farið úr samfélagslegri eigu í hendur kanadíska fyrirtækisins Magma Energy. Þá eru mörg helstu náttúruverðmæti Íslendinga og valdið til að ráðstafa þeim í höndum einstakra sveitarfélaga. Aðkoma Vinstri grænna að sveitarstjórnum landsins er því afar mikilvæg svo að ekki verði gerð fleiri afdrifarík mistök á sveitarstjórnarstiginu.

Nú hefur almenningur tækifæri til að leggja gróðahyggjuna endanlega á hilluna og einbeita sér að því að verja velferð og náttúru. Í þeim efnum eru Vinstri græn öflugur bandamaður. Tökum næsta skref að nýju og betra samfélagi á laugardaginn. Kjósum Vinstri græn.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×