Innlent

Pálmi kaupir sér frið frá skilanefnd Glitnis

Pálmi Haraldsson hefur lagt ríflega hálfan milljarð króna í reiðufé inn á reikning skilanefndar Glitnis til að komast hjá því að eignir hans verði kyrrsettar.

Flugfélagið Iceland Express og breska flugfélagið Astreus sem m.a. leigir þotur til þess fyrrnefnda, voru flutt frá Fons, sem var í eigu Pálma Haraldssonar, yfir til Northern Travel Holding, dótturfélags Fons árið 2006. Stuttu eftir bankahrunið voru félögin svo seld til eignarhaldsfélagsins Fengs, sem einnig er í eigu Pálma. Í apríl á síðasta ári var Fons úrskurðað gjaldþrota. Kröfur í búið nema um 40 milljörðum króna.

Nupur Holding SA, er móðurfélag Fengs. Kaupþing í Lúxemborg stofnaði félagið fyrir Pálma og er það líkt og önnur félög sem Kaupþing stofnaði þar í landi stýrt af þremur félögum á Tortóla, að því er fram kemur í lögbirtingarblaðinu í Lúxemborg. Samkvæmt heimildum fréttastofu krafðist skilanefnd Glitnis kyrrsetningar á þessu félagi en skilanefndin stefndi þeim Pálma, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Lárusi Welding fyrr í sumar og krefst 6 milljarða króna í skaðabætur. Er þeim gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína til að hagnast á því persónulega og hafa í leiðinni valdið bankanum fjártjóni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu vildi Pálmi ekki að félagið yrði kyrrsett og bauðst því til að leggja fram reiðufé í staðinn, alls ríflega hálfan milljarð króna. Á það var fallist þar sem reiðufé þykir betri trygging en félagið.

Pálmi vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa náði af honum tali í dag.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.