Innlent

Jónmundur: Upphæðin gæti verið hærri

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

Samtals nema þeir styrkir til Sjálfstæðisflokksins þar sem nöfn styrkveitanda eru hulin leynd samtals 136 milljónum króna, en flokkurinn birti á heimasíðu sinni í gær yfirlit yfir beina styrki til flokksins frá fyrirtækjum og einstaklingum árin 2002-2006.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær var Landsbankinn það fyrirtæki sem styrkti Sjálfstæðisflokkinn mest á þessum tíma eða um 44 milljónir króna, en samtals þáði flokkurinn 285 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum á þessum árum, þar af voru 75,5 milljónir króna frá íslenskum viðskiptabönkum. Stærstu einstöku styrkirnir eru 30 milljóna króna styrkur frá Landsbankanum og annar þrjátíu milljóna króna styrkur frá FL Group sem var veittur hinn 29. desember 2006, aðeins örfáum dögum áður en lögum um hámarksframlag til stjórnmálaflokka var breytt.

Styrktaraðilar Sjálfstæðisflokksins eru flestir nafnlausir, samkvæmt skjali sem flokkurinn birti á heimasíðu sinni. Skýringin á því er sú að starfsfólk Sjálfstæðisflokksins hefur ekki náð í suma sem styrktu flokkinn og aðrir óska eftir nafnleynd, en flokkurinn reyndi að hafa samband við alla styrkveitendur að því er fram kemur í tilkynningu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki opinberað styrki til hverfafélaga sinna sundurliðað. Þá eru ótaldir styrkir sem einstakir þingmenn flokksins fengu í aðdraganda prófkjöra, en þeir hlaupa á tugum milljóna króna.

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að þeir styrkir sem gefnir væru upp á heimasíðu flokksins, alls 285 milljónir króna, væru samtala yfir heildarstyrki til Sjálfstæðisflokksins á landsvísu árin 2002-2006. Jónmundur sagðist þó ekki geta fullyrt að um væri að ræða alla styrki. Hann sagðist ekki geta útilokað að styrkirnir væri fleiri og því gæti upphæðin verið hærri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.