Innlent

Misstu tök á uppsveiflunni

Ásgeir Daníelsson Stýrivextir hefðu þurft að vera mun hærri til að draga úr eftirspurn á árunum fyrir efnahagshrunið. Það hefði hins vegar valdið skaða annars staðar í hagkerfinu, að mati forstöðumanns rannsóknar- og spádeildar Seðlabankans. 
Fréttablaðið/Valli
Ásgeir Daníelsson Stýrivextir hefðu þurft að vera mun hærri til að draga úr eftirspurn á árunum fyrir efnahagshrunið. Það hefði hins vegar valdið skaða annars staðar í hagkerfinu, að mati forstöðumanns rannsóknar- og spádeildar Seðlabankans. Fréttablaðið/Valli

Hefðu bankarnir verið einkavæddir á lengri tíma, hægar farið í fjárfestingar í stóriðju á Kárahnjúkum og Grundartanga og vöxtur bankanna haminn, svo sem með bindisskyldu, hefði peningastefna Seðlabankans átt meiri möguleika á að ráða við þensluna á árunum fyrir efnahagshrunið.

Snörp uppsveifla hagkerfisins frá og með einkavæðingu bankanna olli því hins vegar að vaxtatæki Seðlabankans nýttist ekki jafn vel og ætla mátti. Af þeim sökum varð samdráttur efnahagslífsins meiri en ástæða var til og kreppan dýpri.

Þetta er mat Ásgeirs Daníelssonar, forstöðumanns rannsóknar- og spádeildar á hagfræðisviði Seðlabankans. Hann hélt erindi á málstofu um peningastefnu Seðlabankans í aðdraganda hrunsins síðdegis á þriðjudag.

Ásgeir bendir á að hefðu stjórnvöld farið sér hægar í aðdraganda uppsveiflunnar hefði Seðlabankinn haft betri stjórn á þróun mála.

Uppsveiflan, sem að hluta skýrðist af mjög snarpri útlánaþenslu og eignamyndun í kjölfar einkavæðingar og mikillar hækkunar á hlutabréfamarkaði samhliða gengisstyrkingu, hafi skilað sér í mjög snörpum eftirspurnarskelli. Seðlabankinn hafi ekki getað komið böndum á eftirspurnina með stýrivaxtahækkunum. Vextirnir hefðu þurft að vera mun hærri til að virka líkt og til var ætlast.

Ásgeir vill ekki segja til um hversu háir vextirnir hefðu þurft að vera til að draga úr eftirspurn. „Það hefði þurft að hífa vextina mjög hátt upp til að draga úr eftirspurn manna sem allt í einu stóðu uppi með meiri pening en þeir raunverulega áttu von á. En það hefði valdið skaða annars staðar í hagkerfinu,“ segir hann og útilokar ekki að hefði hægar verið farið í sakirnar megi ætla að einhver af gömlu viðskiptabönkunum hefði lifað bankahrunið af.

jonab@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×